Tuesday, November 04, 2008

Söllar allir nær og fjær

Sælir,

Eins og þekkt er dvöldumst við Brynjar í Baunalandi síðasta vetur. Þar er rík hefð fyrir julefrokostum og skelltum við okkur Brynjar á eitt slíkt hjá Íslendingafélaginu í DTU. Eftir vel útilátna máltíð og einn eða tvo bjóra vorum við ákveðnir að slíkt julefrokost yrði að halda á vettvangi Söllenbergers næstu jól og nú er kominn tími til að huga að þeim málum.

Sjálfur lendi ég á Íslandi 16. desember og ég býst við að flestir Útlanda-Söllar komi heim um svipað leiti. Nemendur HÍ klára próf 18. desember að ég tel svo að þessar skorður setja neðri mörk á dagsetninguna. Ég vil því leggja til að Julefrokost Søllenbergers 2008 verði haldið laugardaginn 20. desember, þetta yrði glæsilegt jólaboð þar sem makar og börn yrðu meira en velkomin (uppkomin börn eru þó afþökkuð þar sem þau mundu örugglega klára matinn okkar). Boðið sjálft er allt á vinnslustigi, þ.e.a.s. húsnæði, matur o.s.frv., en það væri fínt ef þið gætuð tekið þessa dagsetningu frá og komið með hugmyndir um hvernig þið viljið sjá framkvæmdina. Í dag er rúmur einn og hálfur mánuður í boðið þannig að það er útilokað að nokkur sem lesi þetta sé kominn með önnur plön, það er því nokkuð ljóst að þetta er atburður með skyldumætingu.

Jólakveðja,

Ásgeir

Boltatími

Jæja núna þarf að reyna að finna tíma fyrir okkur þar sem að það virðist ekki ganga upp fyrir okkur að vera í HÍ höllinni á laugardögum. Hemmi spurðist fyrir um tíma í Litla-Sal í Gróttu og þar getum við fengið tíma kl 20-20:50 á laugardegi á litlar fjögurþúsund og e-ð krónur, eða ca 3x meira en tíminn í HÍ. En það er snilld að vita af þessum tíma og gæti vel verið málið fyrir okkur. Hins vegar hef ég áhyggjur af því að við þurfum nett mikið af varamönnum ef að við fáum Litla-Sal á þessum ósiðlega tíma. Einhvern veginn myndi ég halda að oft myndu menn ekki komast vegna matarboða eða teita. Síðan má ekki gleyma því að nokkrir Söllar nota helgar í það að komast eins langt frá Reykjavík eins og þeir geta. Til dæmis til að elta fiðurfé, villta útlendinga eða að spreða gjaldeyri í fjarlægu landi.
Þess vegna ætla ég að viðra þá hugmynd um að reyna að fá tíma á virkum degi. T.d. á mánudegi eða þriðjudegi. Þá helst eftir 17 svo að vinnandi menn nái tímanum og helst sem nálægast helginni til að fá slúðrið. En þetta er með þeim fyrirvara að það sé laus tími og að Samnings-Svenni nenni að kíkja á þessa hugmynd. Ég er alls ekki að loka á þá hugmynd að hafa boltann í Litla-Sal. Ég er bara að reyna að fá smá umræðu um hvað menn vilja. Ef menn kommenta ekki á þetta þá verða menn bara að sætta sig við þann tíma sem að Samnings-Svenni og Hemmi hamar fá. Með von um umræðu, Þorsteinn Snæland
 
web statistics