Sunday, January 27, 2008

Ferðafélagið Söllenbergers

Eins og elstu menn muna nálgast þriggja ára afmæli Fótboltafélagsins Söllenbergers óðfluga en sagnfræðingum ber saman um að það hafi verið stofnað í reykfylltum fyrirlestrarsölum Háskólabíós haustið 2005 þegar að flestir meðlimir félagsins hófu háskólanám. Hið væntanlega þriggja ára afmæli hefur í sér fólgna merkingu, nefnilega þá að flestir þeir eru komu að stofnun félagsins þetta örlagaríka haust koma til með að útskrifast frá Háskóla Íslands næstkomandi vor og af því tilefni  eru komnar upp hugmyndir um að bæta nýju dótturfélagi við móðurfélagið Söllenbergers, Ferðafélagið Söllenbergers (takið eftir að öll systurfélögin halda áfram að heita nöfnum sem byrja á "F").

Nánar tiltekið er hugmyndin sú að þegar að prófin klárast við verk- og raunvísindadeildir HÍ, sem ku vera 15. maí, verði haldið út í heim, ný lönd lögð undir fót og vænlegir fjárfestingakostir skoðaðir (væntalega verður lögð áhersla á fjárfestingar í áfengis- og matvælageiranum að þessu sinni). Ferðinni er ætlað að standa yfir í u.þ.b. viku, lagt af stað 16. maí og komið heim í kringum 23. sama mánaðar. Nú þegar hafa margir Söllar lýst sig spennta fyrir hugmyndinni, en gaman væri að fá í athugasemdakerfið hversu margir mundu hafa áhuga á að slást með í för og jafnvel uppástungur um áfangastaði.

Kv,
Ásgeir


P.s. Um daginn var ég í skriflegu prófi hér í Kaupmannahöfn og var þar sérstaklega tekið fram í upphafi prófs að bannað væri að reykja inni í prófstofu á meðan að prófi stæði. Fróðlegt væri að vita hvað mundi gerast ef e-r tæki sig til og kveikti sér í vindli yfir prófi á Íslandi. Sérverkefni fyrir áhugasama?

Tuesday, January 15, 2008

Viðskiptatækifæri

Eins og flestir lesendur síðunnar vita hafa síðustu vikur verið ansi sveiflukenndar á hlutabréfamarkaði. Ég hef því kannað aðra fjárfestingamöguleika fyrir félagið og er kominn á þá skoðun að við ættum að einbeita okkur að því að fjárfesta í hugviti á næstu mánuðum.

Ómetanlega uppsprettu tækifæra er að finna í lokaverkefnamiðlun Stúdentamiðlunar, sem finna má á studentamidlun.is. Í kvöld hljóp aldeilis á snærið hjá mér þegar að ég fann afburðargott verkefni þar inni, nefnilega ritgerðina
Lesbískar mæður: Barneignir og fjölskyldulíf
Ég mæli með því að þið lesið útdrátt hérna og svo söfnum við saman í tilboð (skráð verð fyrir verkefnið er einmitt "Tilboð óskast"). Eftir að við höfum komið okkur saman um hugsanlegt verð skulum við svo senda póst á höfundinn, djusibelja@hotmail.com, mér detta strax nokkrir í hug sem ættu að vera áhugasamir um að fara og skrifa undir kaupsamninginn.

Kveðjur frá Kaupmannanhöfn,
Ásgeir

Monday, January 14, 2008

Hlutafjáraukning

Kæru söllar, nú er komið að hlutafjáraukningunni sem boðuð var í tilkynningunum hér að framan. Þeir sem ætla að vera með í vor skulu greiða 3.000 ISK inn á söllareikninginn góða:
  • Reikningsnúmer: 0311-13-177305
  • Kennitala: 2502852569
Sumir hafa ekki enn áttað sig á því hvers vegna reikningsnúmerið er töff. Þeir ættu að prófa að lesa það á hvolfi.

Wednesday, January 09, 2008

Uppgjör fyrrverandi gjaldkera

Sæliblessi, Nú um áramótin vissi ég af því að við Söllar mundum detta í lukkupottinn því von var á vöxtum á reikninginn sem ég sá um áður en ég hélt til Kaupmannahafnar. Ég skráði mig því spenntur inn á Netbanka Kaupþings og þar sá ég að þann 31. desember fengum við heilar 
378 kr
í vexti fyrir síðasta ár. 
Af þeim þurftum við svo að borga 37 kr fjármagnstekjuskatt.

Að öllum þessum reikningum loknum kom í ljós að heildarstaða reikningins eru 1.279 kr. Eins og menn muna gerðum við heiðarlega tilraun til að eyða öllu eiginfé sem við áttum í sumar í Söllagrillveisluna heima hjá Svenna, en e-r peningar urðu eftir eftir hana. Þeir sem að mættu ekki í veisluna eiga því forgangsrétt á þessum fjármunum, en þar sem það yrðu örfáir hundraðkallar sem hver og einn fengi vil ég leggja til að ég millifæri þessa fúlgu fjár á hann Höskuld og hún verði svo notuð til að greiða boltaskuldir við íþróttahús Háskólans og bolta nú á vorönn.

Það væri ágætt að fá viðbrögð við þessari tillögu sem fyrst svo að ég geti haft samband við fyrirtækjafulltrúa okkar og látið hann sjá um millifærsluna. Kv, Ásgeir

Wednesday, January 02, 2008

Eigið fé uppurið

Gleðilegt nýtt ár, kæru söllar. Brátt fer söllaboltinn að rúlla á nýjan leik eftir langt jólafrí og kominn er tími á nýja hlutafjáraukningu. Hér koma nokkrar staðreyndir:
  • Fyrir tvöfaldan boltatíma greiðum við 3000 krónur.
  • Í haust borguðum við fyrir tíu fyrstu tímana. Boltarnir eru hins vegar orðnir fleiri en tíu, líklega í kringum fimmtán. Við skuldum því íþróttahúsinu nokkra tíma.
  • Tíu litlir söllastrákar tóku þátt í hlutafjáraukningunni í haust og borgaði hver þeirra 3000 krónur.
  • Söllastrákarnir tíu eru Hermann, Hlynur, Húnbogi, Höskuldur, Jón Árni, Kári, Rósant, Sigurjón, Vilhjálmur og Þorsteinn.
  • Staðan á söllareikningum góða er 10 söllar * 3000 kr/sölla - 10 tímar * 3000 kr/tíma + vextir = 114 krónur.
Ljóst er að nokkrir söllar sem tóku þátt í boltum fyrir áramót eiga enn eftir að greiða. Við þurfum að ganga frá þessum málum og fullgreiða þá tíma sem við eigum enn eftir að borga áður en við hefjum nýja almenna hlutafjáraukningu fyrir komandi boltavor. Nokkrir söllar sem dvöldu í Skandinavíu hafa snúið aftur og ósanngjarnt væri að nota hlutafé frá þeim til að greiða boltaskuldir frá því fyrir jól. Hvað segið þið, söllar? Hverjir eiga eftir að borga? Hvað skuldum við marga tíma?
 
web statistics