Saturday, October 18, 2008

Nú er spurt.

Kæru Söllar og lögfræðingar þeirra.

Eins og hvert mannsbarn veit þá er gríðarlegur samdráttur í efnahagskerfi heimsins sem og á Íslandinu stóra. Þessar hörmungar hafa áhrif á okkur öll, fjölskyldur og börn okkar.

Engum hefði órað fyrir því að þetta hefði áhrif á félag okkar Söllenbergera. Nú hefur komið í ljós að nokkrir harðir fylgismenn Sölla hafa flúið land og reynt að finna grænna gras á meðan við hin reynum að hugsa jákvætt og vonum að ferðalangarnir komi heim með þekkingu og gjaldeyri.

Á þessum skelfingar tímum verðum við að snúa bökum saman,verjast og berjast, við þurfum að vera hugrakkir og snjallir. Síðast en ekki síst þá þurfum við að halda áfram að hittast vikulega í Höllinni okkar góðu í HÍ. Nú hefur verið tekin ákvörðun um það að á meðan útrás liðsmanna Sölla stendur sem hæst og við erum eins fáliðaðir eins og raun ber vitni, þá verða menn skipaðir í tvo flokka. Annars vegar Fastamenn og hins vegar Varamenn.

Fastamenn eru þeir Söllar sem að eru skikkaðir til að mæta, eða ígildi þeirra, í hvern einasta tíma sem að haldin er í Höllinni í HÍ. Á þeirra ábyrgð er að mæta eða að hafa mann í sinn stað. Einnig er á þeirra ábyrgð að borga tímana. Ef að tveir eða fleiri Fastamenn geta ekki mætt væri hægt að sleppa því að koma með mann í sinn stað en þá einungis til að halda sléttri tölu. Hugsanlegt er að fjöldi Fastamann verði oddatala. Það á ekki að vera vandamál þar sem að gert er ráð fyrir að a.m.k. einn Fastamaður geti ekki mætt hverju sinni og ætti því slétt tala að nást.

Varamenn eru þeir Söllar eða gestir Sölla sem eru notaðir til að fylla upp í þau skörð sem að myndast þegar Fastamenn geta ekki mætt af einhverjum ástæðum. T.d. til að skrifa undir mikilvæga samninga út í bæ. Tek sem dæmi að kaupa Nýja Glitni, eða Verslunarskólann til að rífa fyrir tennisvöll okkar Sölla. Varamenn borga ekkert fyrir að vera Varamenn en þeir sem að eru Söllar borga auðvitað ársgjöld til að halda árshátíðir og annað sem að ekki þarf að nefna hér.

Þá er talið að það sé langfljótlegast og auðveldast að ná þessum markmiðum sem að ofan eru talin, með því að nota annað hvort vefpóst eða heimasíðu félagsins. Þar sem að þessar reglur eiga rætur að rekja frá Miðvikudagsboltanum fræga má bæta því inn að vefpóstur er notaður til að koma skilaboðum á milli og auðvitað er síminn notaður óspart. Þetta skipulag hefur virkað gríðarlega vel í um 6-8 ár í þeim Bolta.

Þá er aðalmálið núna fyrir hvern og einn að gera það upp við sjálfan sig hvort hann vilji vera Fastamaður eða Varamaður. Vonast er til að ná að minnsta kosti 8 Fastamönnum og hafa góðan lista af Varamönnum. Taka skal fram að þeir Söllar sem að kjósa að vera Varamenn eru ekki lægra settir en hinir Föstu Söllar. Annað mikilvægt mál er að ef að Fastamenn verða 12 eða fleiri þá verðum við eiginlega að fá tvo tíma en það er e-ð sem að kemur í ljós þegar talning þeirra fer fram.

Ljóst er að framtíð Söllenbergera er björt og góð. Við verðum að halda böndin, rækta þessi bönd og nota þessi bönd. Ef ekki þá fer „bé-ið“ af bönd og verður önd sem að flýgur í burtu og e-r skytta eins og Húni gæti skotið þessa önd og borðað. Þá er ekki aftur snúið kæru félagar og vinir. Jæja áður en þetta fer út í e-ja vitleysu þá kveður undirritaður með von um góðar undirtektir þessa bréfs.

Fyrir hönd þeirra 6 sem að mættu í fyrsta tímann haustið 2008,

Þorsteinn Rafn H. Snæland

Thursday, October 09, 2008

Óska Söllar eftir greiðslustöðvun?

Já, þessi spurning brennur eflaust á vörum okkar allra eftir atburði síðustu daga. 

Aðilar, sem Söllar töldu vera vini hafa brugðist með eindæmum og gert Söllum lífið leitt. Nú standa yfir stíf fundarhöld og öll ljós loga í bráðabirgða-höfuðstöðum Sölla (VR II) þar sem öll spil eru lögð á borðið og farið yfir stöðuna.

Ekki náðist í formann stjórnarninnar en viðtals er að vænta innan skamms. Eins og áður sagði þá eru söllar skuldugir og er verið að krefja þá um fé hvaðanæva úr viðskiptalífinu. Einna helst er það starfsfólk íþróttahúss Háskóla íslands sem gengur hvað harðast fram í þessum efnum en skv. heimildum þá skulda söllar þeim nokkrar kúlur. 

Söllar leituðu eftir lánsfé frá SÍ en óvíst er hvort undirliggjandi tryggingar dugi, en þær eru víst í formi hlutabréfa í rússneskum áhættusjóð sem er illseljanlegur um þessar mundir.

Ef svo fer að Söllar ákveði að leita til FME þá er ljóst að fé mun tapast. Innlánsreikningur okkar verður þá tekinn fyrir og notaður til að greiða hluta af skuldunum. Mikil óvissa ríkir á meðal starfsmanna og beinast öll spjót að stjórnarformanninum, Ásgeiri Birkissyni en hann á að hafa skipað sér ofurlaun á kostnað hinna. 

Svo ég útskýri aðeins mál mitt, þá lögðu stjórnarmenn Söllernberges mikla vinnu í að fá úthlutaða kennitölu en svo seint í gærkvöld kom það í ljós að sú vinna skilaði engu þar sem umsókninni var hafnað. Nú hefur formaður stjórnarinnar ennþá einn umsjón yfir reikningi Söllenbergers. Eins og flestir vita er hann búsettur í Bretlandi og eru bankaviðskipti og millifærlsur ekki vinsæl milli þessara landa um þessar mundir.

Heyrst hefur að ef FME tekur yfir félagið þá mun það heita Nýji Söllenbergers.

Meira síðar...

- Sveinn

Saturday, October 04, 2008

Söllaboltinn endurlífgaður

Í dag gerði ég mér ferð vestur í bæ, heimsótti íþróttahús Háskólans eins og lofað var og ræddi við starfsfólkið. Ég spurðist fyrir um lausa tima í íþróttasalnum og fékk að skoða planið þeirra. Þá sá ég að 15:45 á laugardögum var laus tími og ég lét til leiðast og bókaði þann tíma. Vert er að taka fram að þetta er einfaldur tími en ekki tvöfaldur eins og tíðkast hefur síðustu ár.

Ég vil því fá að vita hversu margir sjá sér fært að mæta í þennan tíma og ætlast til að menn noti athugasemdakerfið til þess.

Ég vil minna menn á að við þurfum lágmark 8-10 í hvern bolta þannig að við verðum að sjá til þess að það verði alltaf þessi lágmarksfjöldi sem mætir.

Hvað segja menn, á ég að negla tímann eða ekki?

Sveinn.
 
web statistics