Monday, December 29, 2008

Áramótabolti

Sælir,

Þurfum við ekki að nýta tækifærið og taka góðan bolta á meðan að Útrásar-Söllarnir eru á landinu? Hvernig líst mönnum á kl. 13 á morgun (þriðjudag) eða kl. 13 á gamlársdag? Camp East eða Lindó?

Kv,
Ásgeir

Tuesday, December 09, 2008

Søllefrokost 2008

Sælir verið Söllar,

Hér má finna auglýsingaplakat Søllefrokosts 2008. Eins og sjá má er dagskráin og matseðillinn ekki af verri endanum og því um að gera að millifæra sem fyrst yfir á glænýjan reikning félagsins, með kennitölu 671108-1910 (nýja Söllenbergers kennitalan!) og reikningsnúmeri 1154-05-403792. Líkt og glöggir menn taka eftir er 500 kr dýrara fyrir Sölla en maka á þennan fögnuð. Það er þó ekki vegna þess að makarnir borði minna eins og sumir gætu talið heldur er vinna komin af stað til að útbúa jólagjöf Söllenbergers 2008 sem verður ekki af lakari sortinni og því leggst þessi aukakostnaður ofan á matarverðið.

Líkt og venjan er á Söllaviðburðum er ætlast til þess að menn taki með sitt eigið áfengi en boðið verður upp á óáfenga drykki fyrir þá sem það vilja. Skv. Söllareglum verður afgangsfé svo eytt í sameiginlegt áfengi, líklegast fordrykk og mexíkóskt. Beinið endilega öllum spurningum í kommentakerfið á blogginu, vegginn á Feisbúkk eða skilaboðum til mín, Bessa, Svenna eða Þossa eftir því sem við á.

Kv,

Ásgeir

Tuesday, November 04, 2008

Söllar allir nær og fjær

Sælir,

Eins og þekkt er dvöldumst við Brynjar í Baunalandi síðasta vetur. Þar er rík hefð fyrir julefrokostum og skelltum við okkur Brynjar á eitt slíkt hjá Íslendingafélaginu í DTU. Eftir vel útilátna máltíð og einn eða tvo bjóra vorum við ákveðnir að slíkt julefrokost yrði að halda á vettvangi Söllenbergers næstu jól og nú er kominn tími til að huga að þeim málum.

Sjálfur lendi ég á Íslandi 16. desember og ég býst við að flestir Útlanda-Söllar komi heim um svipað leiti. Nemendur HÍ klára próf 18. desember að ég tel svo að þessar skorður setja neðri mörk á dagsetninguna. Ég vil því leggja til að Julefrokost Søllenbergers 2008 verði haldið laugardaginn 20. desember, þetta yrði glæsilegt jólaboð þar sem makar og börn yrðu meira en velkomin (uppkomin börn eru þó afþökkuð þar sem þau mundu örugglega klára matinn okkar). Boðið sjálft er allt á vinnslustigi, þ.e.a.s. húsnæði, matur o.s.frv., en það væri fínt ef þið gætuð tekið þessa dagsetningu frá og komið með hugmyndir um hvernig þið viljið sjá framkvæmdina. Í dag er rúmur einn og hálfur mánuður í boðið þannig að það er útilokað að nokkur sem lesi þetta sé kominn með önnur plön, það er því nokkuð ljóst að þetta er atburður með skyldumætingu.

Jólakveðja,

Ásgeir

Boltatími

Jæja núna þarf að reyna að finna tíma fyrir okkur þar sem að það virðist ekki ganga upp fyrir okkur að vera í HÍ höllinni á laugardögum. Hemmi spurðist fyrir um tíma í Litla-Sal í Gróttu og þar getum við fengið tíma kl 20-20:50 á laugardegi á litlar fjögurþúsund og e-ð krónur, eða ca 3x meira en tíminn í HÍ. En það er snilld að vita af þessum tíma og gæti vel verið málið fyrir okkur. Hins vegar hef ég áhyggjur af því að við þurfum nett mikið af varamönnum ef að við fáum Litla-Sal á þessum ósiðlega tíma. Einhvern veginn myndi ég halda að oft myndu menn ekki komast vegna matarboða eða teita. Síðan má ekki gleyma því að nokkrir Söllar nota helgar í það að komast eins langt frá Reykjavík eins og þeir geta. Til dæmis til að elta fiðurfé, villta útlendinga eða að spreða gjaldeyri í fjarlægu landi.
Þess vegna ætla ég að viðra þá hugmynd um að reyna að fá tíma á virkum degi. T.d. á mánudegi eða þriðjudegi. Þá helst eftir 17 svo að vinnandi menn nái tímanum og helst sem nálægast helginni til að fá slúðrið. En þetta er með þeim fyrirvara að það sé laus tími og að Samnings-Svenni nenni að kíkja á þessa hugmynd. Ég er alls ekki að loka á þá hugmynd að hafa boltann í Litla-Sal. Ég er bara að reyna að fá smá umræðu um hvað menn vilja. Ef menn kommenta ekki á þetta þá verða menn bara að sætta sig við þann tíma sem að Samnings-Svenni og Hemmi hamar fá. Með von um umræðu, Þorsteinn Snæland

Saturday, October 18, 2008

Nú er spurt.

Kæru Söllar og lögfræðingar þeirra.

Eins og hvert mannsbarn veit þá er gríðarlegur samdráttur í efnahagskerfi heimsins sem og á Íslandinu stóra. Þessar hörmungar hafa áhrif á okkur öll, fjölskyldur og börn okkar.

Engum hefði órað fyrir því að þetta hefði áhrif á félag okkar Söllenbergera. Nú hefur komið í ljós að nokkrir harðir fylgismenn Sölla hafa flúið land og reynt að finna grænna gras á meðan við hin reynum að hugsa jákvætt og vonum að ferðalangarnir komi heim með þekkingu og gjaldeyri.

Á þessum skelfingar tímum verðum við að snúa bökum saman,verjast og berjast, við þurfum að vera hugrakkir og snjallir. Síðast en ekki síst þá þurfum við að halda áfram að hittast vikulega í Höllinni okkar góðu í HÍ. Nú hefur verið tekin ákvörðun um það að á meðan útrás liðsmanna Sölla stendur sem hæst og við erum eins fáliðaðir eins og raun ber vitni, þá verða menn skipaðir í tvo flokka. Annars vegar Fastamenn og hins vegar Varamenn.

Fastamenn eru þeir Söllar sem að eru skikkaðir til að mæta, eða ígildi þeirra, í hvern einasta tíma sem að haldin er í Höllinni í HÍ. Á þeirra ábyrgð er að mæta eða að hafa mann í sinn stað. Einnig er á þeirra ábyrgð að borga tímana. Ef að tveir eða fleiri Fastamenn geta ekki mætt væri hægt að sleppa því að koma með mann í sinn stað en þá einungis til að halda sléttri tölu. Hugsanlegt er að fjöldi Fastamann verði oddatala. Það á ekki að vera vandamál þar sem að gert er ráð fyrir að a.m.k. einn Fastamaður geti ekki mætt hverju sinni og ætti því slétt tala að nást.

Varamenn eru þeir Söllar eða gestir Sölla sem eru notaðir til að fylla upp í þau skörð sem að myndast þegar Fastamenn geta ekki mætt af einhverjum ástæðum. T.d. til að skrifa undir mikilvæga samninga út í bæ. Tek sem dæmi að kaupa Nýja Glitni, eða Verslunarskólann til að rífa fyrir tennisvöll okkar Sölla. Varamenn borga ekkert fyrir að vera Varamenn en þeir sem að eru Söllar borga auðvitað ársgjöld til að halda árshátíðir og annað sem að ekki þarf að nefna hér.

Þá er talið að það sé langfljótlegast og auðveldast að ná þessum markmiðum sem að ofan eru talin, með því að nota annað hvort vefpóst eða heimasíðu félagsins. Þar sem að þessar reglur eiga rætur að rekja frá Miðvikudagsboltanum fræga má bæta því inn að vefpóstur er notaður til að koma skilaboðum á milli og auðvitað er síminn notaður óspart. Þetta skipulag hefur virkað gríðarlega vel í um 6-8 ár í þeim Bolta.

Þá er aðalmálið núna fyrir hvern og einn að gera það upp við sjálfan sig hvort hann vilji vera Fastamaður eða Varamaður. Vonast er til að ná að minnsta kosti 8 Fastamönnum og hafa góðan lista af Varamönnum. Taka skal fram að þeir Söllar sem að kjósa að vera Varamenn eru ekki lægra settir en hinir Föstu Söllar. Annað mikilvægt mál er að ef að Fastamenn verða 12 eða fleiri þá verðum við eiginlega að fá tvo tíma en það er e-ð sem að kemur í ljós þegar talning þeirra fer fram.

Ljóst er að framtíð Söllenbergera er björt og góð. Við verðum að halda böndin, rækta þessi bönd og nota þessi bönd. Ef ekki þá fer „bé-ið“ af bönd og verður önd sem að flýgur í burtu og e-r skytta eins og Húni gæti skotið þessa önd og borðað. Þá er ekki aftur snúið kæru félagar og vinir. Jæja áður en þetta fer út í e-ja vitleysu þá kveður undirritaður með von um góðar undirtektir þessa bréfs.

Fyrir hönd þeirra 6 sem að mættu í fyrsta tímann haustið 2008,

Þorsteinn Rafn H. Snæland

Thursday, October 09, 2008

Óska Söllar eftir greiðslustöðvun?

Já, þessi spurning brennur eflaust á vörum okkar allra eftir atburði síðustu daga. 

Aðilar, sem Söllar töldu vera vini hafa brugðist með eindæmum og gert Söllum lífið leitt. Nú standa yfir stíf fundarhöld og öll ljós loga í bráðabirgða-höfuðstöðum Sölla (VR II) þar sem öll spil eru lögð á borðið og farið yfir stöðuna.

Ekki náðist í formann stjórnarninnar en viðtals er að vænta innan skamms. Eins og áður sagði þá eru söllar skuldugir og er verið að krefja þá um fé hvaðanæva úr viðskiptalífinu. Einna helst er það starfsfólk íþróttahúss Háskóla íslands sem gengur hvað harðast fram í þessum efnum en skv. heimildum þá skulda söllar þeim nokkrar kúlur. 

Söllar leituðu eftir lánsfé frá SÍ en óvíst er hvort undirliggjandi tryggingar dugi, en þær eru víst í formi hlutabréfa í rússneskum áhættusjóð sem er illseljanlegur um þessar mundir.

Ef svo fer að Söllar ákveði að leita til FME þá er ljóst að fé mun tapast. Innlánsreikningur okkar verður þá tekinn fyrir og notaður til að greiða hluta af skuldunum. Mikil óvissa ríkir á meðal starfsmanna og beinast öll spjót að stjórnarformanninum, Ásgeiri Birkissyni en hann á að hafa skipað sér ofurlaun á kostnað hinna. 

Svo ég útskýri aðeins mál mitt, þá lögðu stjórnarmenn Söllernberges mikla vinnu í að fá úthlutaða kennitölu en svo seint í gærkvöld kom það í ljós að sú vinna skilaði engu þar sem umsókninni var hafnað. Nú hefur formaður stjórnarinnar ennþá einn umsjón yfir reikningi Söllenbergers. Eins og flestir vita er hann búsettur í Bretlandi og eru bankaviðskipti og millifærlsur ekki vinsæl milli þessara landa um þessar mundir.

Heyrst hefur að ef FME tekur yfir félagið þá mun það heita Nýji Söllenbergers.

Meira síðar...

- Sveinn

Saturday, October 04, 2008

Söllaboltinn endurlífgaður

Í dag gerði ég mér ferð vestur í bæ, heimsótti íþróttahús Háskólans eins og lofað var og ræddi við starfsfólkið. Ég spurðist fyrir um lausa tima í íþróttasalnum og fékk að skoða planið þeirra. Þá sá ég að 15:45 á laugardögum var laus tími og ég lét til leiðast og bókaði þann tíma. Vert er að taka fram að þetta er einfaldur tími en ekki tvöfaldur eins og tíðkast hefur síðustu ár.

Ég vil því fá að vita hversu margir sjá sér fært að mæta í þennan tíma og ætlast til að menn noti athugasemdakerfið til þess.

Ég vil minna menn á að við þurfum lágmark 8-10 í hvern bolta þannig að við verðum að sjá til þess að það verði alltaf þessi lágmarksfjöldi sem mætir.

Hvað segja menn, á ég að negla tímann eða ekki?

Sveinn.

Tuesday, September 30, 2008

Jæja kallar!

Þar sem að ég þarf að halda mér í formi andlega og líkamlega vil ég að allir kommenti og segi sína skoðum um að panta annað hvort einn bolta-tíma eða tvo. Það kemur sem sagt ekki til greina að það verði ekkert um bolta í vetur. Það væri algjör synd að missa þetta niður. Elska ykkur líka rúsínubossarnir mínir.

Wednesday, September 10, 2008

Ekkiheimsendabolti

Jæja,

Lítið varð fyrir heimsendanum sem við áttum von á í morgun, legg því til að við höfum bolta annað kvöld til að fagna því að heimurinn sé enn til staðar en einnig til að kveðja Bezier sem fer út á laugardaginn. Hvernig hljómar kl. 18 á Lindó?

Monday, September 08, 2008

Heimsendabolti

Eins og allir vita verður heimsendir á miðvikudagsmorgunn. Eru ekki allir til í heimsendabolta annað kvöld?

Sunday, August 17, 2008

Bolti í kvöld

Eru ekki allir spenntir fyrir bolta í kvöld?

Friday, August 15, 2008

Söllakveðjuhóf

Sælir, söllar. Eins og þið allir vitið þá munu nokkrir söllar yfirgefa landið í haust og halda út í hinn stóra heim. Þessa sölla þarf að kveðja og því verður haldinn sölladagur á morgun, laugardag. Gróft plan er svohljóðandi: Byrjum daginn á því að horfa á handboltaleikinn sem hefst klukkan 12:40, síðan skellum við okkur í söllasund í Vesturbæjarlauginni, borðum svo pitsu á Eldsmiðjunni og loks förum við heim til Hlyns þar sem við drekkum, syngjum og skemmtum okkur við undirleik ipods Hemma. Hvernig lízt ykkur á þetta? Hverjir sjá fram á að geta tekið þátt? Nánari tímasetningar munu birtast sem athugasemdir.

Tuesday, August 05, 2008

Söllar á Gay Pride?

Í gær kviknaði eftirfarandi hugmynd: Um næstu helgi er Gay Pride hommagangan. Hvernig væri ef við myndum sýna samkynhneigðum samstöðu með því að mæta allir niður í bæ söllabúningum og ganga svo fylktu liði niður Laugaveginn með glænýjan söllafána?

Thursday, July 31, 2008

Fimmtudagsbolti

Það verður bolti á fimmtudaginn klukkan 20:30 á Lindó. Ætla ekki allir að mæta?

Tuesday, July 29, 2008

Næsti bolti

Hvenær vilja menn hafa hann?

Sunday, July 20, 2008

Næsti bolti

Fáir virðast komast í bolta í kvöld. En eru ekki allir til í bolta á morgun, mánudag?

Tuesday, July 15, 2008

Fór bara úr lið!

Friday, July 04, 2008

Uppfærsla

Eftirfarandi aðilar hafa greitt grill + stofngjald þegar þetta er skrifað (kl. 18:17 föstudaginn 4. júlí):
*Ásgeir
*Brynjar
*Kári
*Vilhjálmur Alvar

Eins og sjá má eru þetta ekki nærri því allir sem ætla sér að koma á morgun svo ég hvet ykkur til að ganga frá greiðslu sem allra fyrst. Stefnan er að fara í búð eftir hádegi á morgun svo að mikilvægt er að þetta verði greitt fyrir hádegi á morgun eða ég látinn vita ef menn ætla að mæta en hafa ekki greitt.

Til að það komi fram í færslu en ekki bara athugasemdakerfi eru makar velkomnir með á morgun, þetta yrði þá fyrsta Fjölskyldu-Söllagrillið. Stefnan er svo sett á bolta á morgun í kringum 14, sund eftir boltann og svo heim til Brynjars en nánari tímasetningar verða auglýstar í kvöld eða á morgun.

--- Uppfærsla kl. 21:30 ---
Því miður er ég ekki með auðkennislykilinn við hendina svo ég get ekki uppfært listann yfir þá sem eru búnir að borga. Hins vegar er orðið ljóst hvernig planið á morgundeginum verður. Matarnefnd fer og kaupir inn kl. 13:00 en fæstir sem lesa þetta þurfa að hafa áhyggjur af því. Síðan er stefnt að stofnfundsbolta kl. 14:15 á stóra gervigrasinu við Neslaug sem stendur yfir í ca. tvo tíma, þegar hann er búinn kl. 16:15 löbbum við svo út af vellinum og beint í sund. Sundið er ca. einn og hálfur tími svo kl. 17:45 ættum við að vera farnir upp úr lauginni. Þá eru tveir möguleikar í stöðunni sem mönnum er frjálst að velja á milli, annars vegar að fara beint til Binna og vera komnir þar kl. 18:00 sem krefst þess að menn hafi þau föt sem þeir vilja vera í um kvöldið með í bolta og sund, eða þá að menn fari heim til sín aftur, skipti um föt og komi svo til Binna. Þeir sem taka seinni kostinn eru beðnir um að vera komnir til Binna kl. 19 helst (nema þá þeir sem eru löglega afsakaðir). Kl. 19 ætti eldamennskan að vera komin vel á veg og menn byrjaðir að sulla í bjór, fyrstu búrgerarnir ættu að byrja að snarka á grillinu kl. 19:20 og þeir ættu að koma af grillinu kl. 19:30 þegar fyrstu Söllar ættu að fá sinn fyrri búrger. Að mati loknum verður svo almenn drykkja og svall eins og segir í uppkasti að lögum félagsins.

Kv,
Ásgeir

Wednesday, July 02, 2008

Stofnun félags og Söllagrill I, 2008

Sælir,

Eins og margir hafa haft pata af verður næsti laugardagur stór dagur í lífi Söllenbergers. Þá er annars vegar stefnt að því að undirrita lög félagsins svo að hægt verði að sækja um kennitölu fyrir félagið og hins vegar verður fyrsta Söllagrill sumarsins haldið. Ný söngbók verður vígð og von er á óvæntum glaðningi tengdri henni.

Lagt hefur verið til að félagið fjárfesti í almennilegum fótbolta til notkunar á æfingum og er verð á honum í kringum 4.000 kr. Kennitala fyrir félagið kostar 5.000 svo samtals eru þetta 9.000 krónur. Þar sem væntur fjöldi stofnfélaga er af stærðargráðunni 10 legg ég til að stofnfélagsgjald verði 1.000 krónur, hugsanlegum afgangi verður skilað aftur til félagsmanna, líklegast á fljótandi formi. Þeir sem greiða þetta gjald munu geta titlað sig Stofnfélaga Söllenbergers sem verður eftirsóttur titill í framtíðinni.

Söllagrillið verður haldið hjá Binna á laugardaginn og er stefnt að því að menn leggi í púkk, matarnefnd sjái um innkaup og grillun á hamborgurum ofan í mannskapinn. Nánari upplýsingar, svo sem tímasetning, verður birt á vefnum síðar en mikilvægt er að fá á hreint sem fyrst hverjir vilja mæta í matinn. Nokkrir meðlimir matarnefndar hafa ákveðið að maturinn á laugardaginn verðleggist á 1.500 kr sem mun duga fyrir fordrykk, tveimur hnausþykkum hamborgurum og meðlæti. Hugsanlegum afgangi mun verða skilað aftur til þeirra sem greiddu á fljótandi formi en menn eru beðnir um að huga að sínum drykkjarföngum sjálfir engu að síður (á mannamáli: afgangnum verður eytt í áfengi en menn ættu einnig að koma með sitt eigið áfengi).

Við getum dregið þessa færslu saman í eftirfarandi niðurstöður:
* Þeir sem vilja verða stofnfélagar og mæta á Söllagrill I, 2008 borgi 2.500
* Þeir sem eingögu mæta á Söllagrill I, 2008, en vilja ekki verða stofnfélagar borgi 1.500
* Þeir sem vilja eingöngu verða stofnfélagar en mæta ekki á Söllagrill I, 2008 borgi 1.000

Upphæðina skal leggja inn á reikning 0311-26-006653, kennitala 131185-2199. Eftir að við höfum gengið frá kennitölumálum munum við svo fá sérstakan bankareikning fyrir félagið sem verður mikið fjör. Fylgist með á síðunni og takið endilega þátt í umræðum.

Kv, Ásgeir

Friday, June 27, 2008

Söllagrill

Stefnt er að fyrsta Söllagrilli sumarsins fyrstu helgina í júlí. Hvernig hentar sú tímasetning ykkur?

Tuesday, June 24, 2008

Fjármögnun

Væri ekki vit að reyna að fjármagna félagið með einhverjum hætti? Væri ekki sniðugt að taka lán í jenum og/eða svissneskum frönkum? Er ekki líklegt að krónan sé að nálgast botninn margfræga? Flott að taka lán upp á svona 80 milljónir til 40 ára eftir ca. hálft ár og kaupa eins og eitt stykki raðhúsalengju af verktaka í fjárkröggum. Við getum svo leigt lengjuna út og reynt að halda út þangað til markaðurinn lagast. Lánið reynum við svo að borga upp á svona 30 árum og þá verður þetta bara eintóm gleði og hamingja í ellinni. Datt bara í hug að starta umræðu um fjárfestingar þar sem þetta á að heita fjárfestingafélag. Endilega komið með innlegg.

Monday, June 02, 2008

Fastur tími í sumar

Sælir,

Við Hössi vorum að ræða um leigu á völlum í sumar og útibolta. Þar sem að útlit er fyrir að ekki náist nægileg stemmning fyrir að leigja Fífuna þýðir ekkert annað en að finna aðra lausn. Það sem að við komum niður á var að við ættum sem fyrst að finna fastan fótboltaspilunartíma sem við stefnum á að spila alltaf á í sumar og svo vonumst við bara eftir góðu boltafæri. Korteri fyrir áætlaðan boltatíma fara svo leitarteymi af stað frá Söllagrenunum (Vesturbær+Nes, Fossvogur o.s.frv.) og leita að lausum sparkvöllum á sínu svæði. Með háþróuðu samskiptakerfi láta leitarteymin svo hvert annað vita þegar laus völlur finnst og hin teymin taka stefnuna á lausa sparkvöllinn. Með þessu fyrirkomulagi ætti hámarksárangur að nást þar sem að strax frá upphafi náum við að kanna gífurlegan fjölda sparkvalla, og samkvæmt lögmáli hins mikla fjöldi ætti e-r þeirra að vera laus. Hvert leitarteymi ætti að ráða yfir bolta svo hægt yrði að byrja spilun strax, þá losnum við við hættuna af því að fullir 12 ára strákar reyni að reka okkur í burtu með ofbeldi.

Þá er það spurningin; Hvernig líst mönnum á þetta og hvaða fasta boltatíma ættum við að stefna að?

P.S. Það er mjög gott að fara í fótbolta hér í Fælledparken, vellirnir eru oftast lausir svo að ykkur langar í bolta um helgina mæli ég eindregið með Danmörku...

Sunday, June 01, 2008

Bolti kl. 20:30?

Valhúsaskóli eða einhver stærri völlur ef margir eru áhugasamir? Til? Því fljótari og meiri viðbrögð, því meiri líkur á boltanum auðvitað.

Monday, May 26, 2008

Leigja völl í sumar?

Sælir, Söllar. Það er oft erfitt að smala mönnum í bolta á sumrin og því hefur þeirri hugmynd verið fleygt fram að við leigjum gervigrasvöll. Rósant Ísak hafði samband við Fífuna sem er yfirbyggður gervigrasvöllur í Kópavogi. Hún á nokkra lausa tíma, m.a. klukkan 20:00 á miðvikudögum. Hvert skipti kostar 6.000 krónur og við fáum afnot af fjórðungi vallarins í klukkutíma. Þetta ætti að henta vel fyrir hóp af okkar stærð og eflaust væri pláss fyrir nýja sumarsölla. Er áhugi fyrir þessu? Látið í ykkur heyra. Þessi tímasetning er örugglega ekki sú eina sem kemur til greina. Að mínu mati hefur þetta fyrirkomulag tvo stóra kosti. Í fyrsta lagi yrðum við með fastan vikulegan tíma og losnuðum því við hina hvimleiðu og óskilvirku boltasmölun. Í annan stað þyrftum við ekki lengur að leita um allan bæ að lausum sparkvelli.

Tuesday, May 06, 2008

Ferðatilhögun?

Binni tekur brokkið á ströndinni vel tanaður og flottur
Jæja litlu ferðasöllar! Það væri gaman að sjá hverju aðrir eru að missa af með því að sýna okkur gróft ferðaplan. Þó það væri nú ekki nema á hvaða hóteli þið eruð á og svo videre. Annars segi ég sjálfur góða skemmtun og góða ferð. ÞS

Tuesday, April 22, 2008

Næstu laugardagar

Sælir, Söllar. Við skuldum íþróttahúsinu 16.500 krónur. Á Söllareikningnum góða eru hins vegar 17.393 krónur og því eigum við samtals 893 krónur. Hver laugardagsbolti kostar 3.000 krónur og því er ljóst að við höfum ekki efni á næsta laugardag, nema við fáum okkur bara sælgæti. Hvað viljum við taka marga innibolta til viðbótar? Eftir tæpar tvær vikur fara margir Söllar í laugardagspróf og því held ég að sá laugardagur sé ónýtur. Hins vegar virtist vera almennur hugur í mönnum að taka einn lokainnibolta næsta laugardag. Hann væri þá jafnframt síðasti innibolti þeirra Sölla sem halda út í heim í haust. Hvað segið þið, kæru Söllar? Eigum við að taka einn bolta í viðbót? Við þyrftum þá að fjármagna hann með einhverjum hætti (mér dettur hlutavelta í hug). Að sjálfsögðu er stefnan svo tekin á a.m.k. vikulegan útibolta í sumar.

Wednesday, April 09, 2008

Einn, tveir og Söllenbergers

A.m.k. ég, Svenni og Hössi erum búnir að kaupa miða til Barcelona án forfallatryggingar. Þar með eru hjólin byrjuð að snúast allsvakalega. Nú þurfa aðrir bara að drífa í að panta miða og staðfesta. Við þurfum nefninlega að fá tölu á þetta svo hægt sé að panta íbúð.

Friday, April 04, 2008

Hugmyndir um hótel

Nú verðum við að skoða þetta af alvöru og helst að finna þetta um helgina. Höldum áfram að bæta í safnið:)

Saturday, March 22, 2008

Eg veit ekki hvern vid vorum ad reyna ad bloffa...

...hverjum datt annad i hug en ad vid faerum til Tekklands i utskriftarferd 2008? Kv, Kafka

Tuesday, March 18, 2008

Páskafrí

Gleðilega páska. Hittumst 29. marz.

Ef einhvern klæjar í fæturna getur sá hinn sami smalað í útibolta.

Thursday, February 21, 2008

Heill bolti næsta laugardag

Næsta laugardag endurheimtum við fyrri boltatímann okkar vegna sanngirni heimsins (eða eitthvað álíka). Boltinn byrjar því ekki seinna en klukkan 14:15. Mætum tímanlega.

Sunday, February 10, 2008

Hálfur bolti næsta laugardag

Næsta laugardag missum við fyrri boltatímann okkar vegna danskennslu eldri borgara (eða eitthvað álíka). Boltinn byrjar því ekki fyrr en klukkan 15:00. Mætum tímanlega.

Sunday, January 27, 2008

Ferðafélagið Söllenbergers

Eins og elstu menn muna nálgast þriggja ára afmæli Fótboltafélagsins Söllenbergers óðfluga en sagnfræðingum ber saman um að það hafi verið stofnað í reykfylltum fyrirlestrarsölum Háskólabíós haustið 2005 þegar að flestir meðlimir félagsins hófu háskólanám. Hið væntanlega þriggja ára afmæli hefur í sér fólgna merkingu, nefnilega þá að flestir þeir eru komu að stofnun félagsins þetta örlagaríka haust koma til með að útskrifast frá Háskóla Íslands næstkomandi vor og af því tilefni  eru komnar upp hugmyndir um að bæta nýju dótturfélagi við móðurfélagið Söllenbergers, Ferðafélagið Söllenbergers (takið eftir að öll systurfélögin halda áfram að heita nöfnum sem byrja á "F").

Nánar tiltekið er hugmyndin sú að þegar að prófin klárast við verk- og raunvísindadeildir HÍ, sem ku vera 15. maí, verði haldið út í heim, ný lönd lögð undir fót og vænlegir fjárfestingakostir skoðaðir (væntalega verður lögð áhersla á fjárfestingar í áfengis- og matvælageiranum að þessu sinni). Ferðinni er ætlað að standa yfir í u.þ.b. viku, lagt af stað 16. maí og komið heim í kringum 23. sama mánaðar. Nú þegar hafa margir Söllar lýst sig spennta fyrir hugmyndinni, en gaman væri að fá í athugasemdakerfið hversu margir mundu hafa áhuga á að slást með í för og jafnvel uppástungur um áfangastaði.

Kv,
Ásgeir


P.s. Um daginn var ég í skriflegu prófi hér í Kaupmannahöfn og var þar sérstaklega tekið fram í upphafi prófs að bannað væri að reykja inni í prófstofu á meðan að prófi stæði. Fróðlegt væri að vita hvað mundi gerast ef e-r tæki sig til og kveikti sér í vindli yfir prófi á Íslandi. Sérverkefni fyrir áhugasama?

Tuesday, January 15, 2008

Viðskiptatækifæri

Eins og flestir lesendur síðunnar vita hafa síðustu vikur verið ansi sveiflukenndar á hlutabréfamarkaði. Ég hef því kannað aðra fjárfestingamöguleika fyrir félagið og er kominn á þá skoðun að við ættum að einbeita okkur að því að fjárfesta í hugviti á næstu mánuðum.

Ómetanlega uppsprettu tækifæra er að finna í lokaverkefnamiðlun Stúdentamiðlunar, sem finna má á studentamidlun.is. Í kvöld hljóp aldeilis á snærið hjá mér þegar að ég fann afburðargott verkefni þar inni, nefnilega ritgerðina
Lesbískar mæður: Barneignir og fjölskyldulíf
Ég mæli með því að þið lesið útdrátt hérna og svo söfnum við saman í tilboð (skráð verð fyrir verkefnið er einmitt "Tilboð óskast"). Eftir að við höfum komið okkur saman um hugsanlegt verð skulum við svo senda póst á höfundinn, djusibelja@hotmail.com, mér detta strax nokkrir í hug sem ættu að vera áhugasamir um að fara og skrifa undir kaupsamninginn.

Kveðjur frá Kaupmannanhöfn,
Ásgeir

Monday, January 14, 2008

Hlutafjáraukning

Kæru söllar, nú er komið að hlutafjáraukningunni sem boðuð var í tilkynningunum hér að framan. Þeir sem ætla að vera með í vor skulu greiða 3.000 ISK inn á söllareikninginn góða:
  • Reikningsnúmer: 0311-13-177305
  • Kennitala: 2502852569
Sumir hafa ekki enn áttað sig á því hvers vegna reikningsnúmerið er töff. Þeir ættu að prófa að lesa það á hvolfi.

Wednesday, January 09, 2008

Uppgjör fyrrverandi gjaldkera

Sæliblessi, Nú um áramótin vissi ég af því að við Söllar mundum detta í lukkupottinn því von var á vöxtum á reikninginn sem ég sá um áður en ég hélt til Kaupmannahafnar. Ég skráði mig því spenntur inn á Netbanka Kaupþings og þar sá ég að þann 31. desember fengum við heilar 
378 kr
í vexti fyrir síðasta ár. 
Af þeim þurftum við svo að borga 37 kr fjármagnstekjuskatt.

Að öllum þessum reikningum loknum kom í ljós að heildarstaða reikningins eru 1.279 kr. Eins og menn muna gerðum við heiðarlega tilraun til að eyða öllu eiginfé sem við áttum í sumar í Söllagrillveisluna heima hjá Svenna, en e-r peningar urðu eftir eftir hana. Þeir sem að mættu ekki í veisluna eiga því forgangsrétt á þessum fjármunum, en þar sem það yrðu örfáir hundraðkallar sem hver og einn fengi vil ég leggja til að ég millifæri þessa fúlgu fjár á hann Höskuld og hún verði svo notuð til að greiða boltaskuldir við íþróttahús Háskólans og bolta nú á vorönn.

Það væri ágætt að fá viðbrögð við þessari tillögu sem fyrst svo að ég geti haft samband við fyrirtækjafulltrúa okkar og látið hann sjá um millifærsluna. Kv, Ásgeir

Wednesday, January 02, 2008

Eigið fé uppurið

Gleðilegt nýtt ár, kæru söllar. Brátt fer söllaboltinn að rúlla á nýjan leik eftir langt jólafrí og kominn er tími á nýja hlutafjáraukningu. Hér koma nokkrar staðreyndir:
  • Fyrir tvöfaldan boltatíma greiðum við 3000 krónur.
  • Í haust borguðum við fyrir tíu fyrstu tímana. Boltarnir eru hins vegar orðnir fleiri en tíu, líklega í kringum fimmtán. Við skuldum því íþróttahúsinu nokkra tíma.
  • Tíu litlir söllastrákar tóku þátt í hlutafjáraukningunni í haust og borgaði hver þeirra 3000 krónur.
  • Söllastrákarnir tíu eru Hermann, Hlynur, Húnbogi, Höskuldur, Jón Árni, Kári, Rósant, Sigurjón, Vilhjálmur og Þorsteinn.
  • Staðan á söllareikningum góða er 10 söllar * 3000 kr/sölla - 10 tímar * 3000 kr/tíma + vextir = 114 krónur.
Ljóst er að nokkrir söllar sem tóku þátt í boltum fyrir áramót eiga enn eftir að greiða. Við þurfum að ganga frá þessum málum og fullgreiða þá tíma sem við eigum enn eftir að borga áður en við hefjum nýja almenna hlutafjáraukningu fyrir komandi boltavor. Nokkrir söllar sem dvöldu í Skandinavíu hafa snúið aftur og ósanngjarnt væri að nota hlutafé frá þeim til að greiða boltaskuldir frá því fyrir jól. Hvað segið þið, söllar? Hverjir eiga eftir að borga? Hvað skuldum við marga tíma?
 
web statistics