Tuesday, June 27, 2006

Boltinn í kvöld

Bolti í kvöld á Camp East klukkan 21:10 stundvíslega (ekki 21:15 eða 21:20!). Þessu gæti þó seinkað til 21:30 verði leikur Spánn og Frakklands framlengdur. Ef í það stefnir verða send sms þess efnis svo enginn á að þurfa að hangsa í 20 mínútur.

Sunday, June 25, 2006

Hættum þessari vitleysu

Einhverjir muna eflaust eftir ferð vestur á Snæfellsnes síðasta sumar. Aðrir muna jafnvel eftir ferð sem var farin fyrir tveimur árum. Þeim Söllum sem fannst skemmtilegt þá, og hafa áhuga á, langar mig til að bjóða vestur helgina 15. og 16. júli. Eins og alltaf þá er möguleiki á veiði, golfi, súperfrisbí, sundferðum og eða gönguferðum auk þess sem skriðkólfurinn verður á svæðinu. Síðan geta menn bara grillað og drukkið Jameson. Ég lofa jafnframt góðu veðri umrædda helgi

Wednesday, June 21, 2006

Söllenbergers gegn Team Lebowski

Það hefur gerzt að við erum fáliðaðir í leikjum vegna þess einfaldlega að menn vita ekki af leiknum. Því vil ég setja það fram á skýran hátt: Söllenbergers leika gegn Team Lebowski. Leikurinn verður annað kvöld, 22. júní. Klukkan hvað? Klukkan átta. En ekki leggja áttuna á minnið, mæting er klukkan 19:20. Í búningum, 19:20, 22. júní. Team Lebowski er líklega lakasta liðið sem við höfum spilað við í sumar. En ég vil ekkert helvítis vanmat. Þeir eiga betri úrslit við Premier FC og þeir hafa átt einn stórsigur. SöllenSöllenSöllenbergers.

Tuesday, June 20, 2006

Þriðjudagsbolti

Bolti í kvöld á Camp East klukkan 21:06. Nú þarf að koma sér í gírinn fyrir fimmtudaginn. Ekkert rugl. Látið vita af mætingu í athugasemdakerfið.

Sunday, June 18, 2006

Söllenkassinn

Eins og elstu menn muna komu búningar liðsins í forlátum kassa á sínum tíma. Kassi þessi er stór og fyrirferðamikill og e-a hluta vegna hefur hann tekið alltof mikið pláss á gólfinu mínu síðustu vikur. Nú er mál að linni. Ég mun því mæta með kassann næst í bolta og pranga honum upp á e-n ykkar ellegar fara með hans til vina sinna í bylgjupappagámnum í Sorpu. Ásgeir

Friday, June 16, 2006

Bara að pæla

Hvernig er stemmningin fyrir bolta á morgun? En fyrir móralskri grillveislu?

Wednesday, June 14, 2006

Æfing á morguneftir!

Minni á æfingu á morgun, Camp East, 20:0021:00. Látið endilega vita um það hvort þið hyggist mæta í athugasemdakerfið.

Sunday, June 11, 2006

Dulbúin tilraun til að festast í sessi

Þar eð ég kemst ekki á þriðjudaginn að spila bikarleikinn hugsa ég að einhver annar muni standa vaktina við markið í þetta sinn. Það minnti mig á stórlið. Ég spilaði í deildinni í síðustu viku og einhver annar í bikarnum í þessari viku. Ég legg til að við göngum alla leið í að líkjast Chelsea og höldum þessu áfram. Höfum einn markvörð í deild og annan í bikar. Það finnst mér töff. Og ekki leiðum að líkjast, Cech og Cudicini.

Saturday, June 10, 2006

Í umhverfisarminum verður ekki þaggað niður

Hver í fjandanum setur sig á svo háan stall að hann þykist hafa völd til þess að eyða færslum út af þessu bloggi án þess að spyrja kóng né prest? Sem ónafngreindum meðlimi umhverfisarmsins sárnar mér þegar ég lít á bloggið morguninn eftir að færsla frá okkur hefur verið sett inn og sú færlsa er horfin. Alveg er það dæmigert að reynt sé að þagga niður í fólki með því að búa því til annan vettvang til að tjá sig á, dæmi eins og menntagatt.is þar sem að fólki var bent að tjá sig um breytingar á framhaldsskólanámi er dæmi um slíkar aðgerðir sem ætlað var að drepa niður allan kraft í umræðunni. Umhverfisarminum verða ekki boðnir slíkir ömurlegir kostir og ætlast til þess að hann sætti sig við það möglunarlaust. Ég veit ekki hver er ábyrgur fyrir þessum árásum á hann, grunar ýmsa en ætla ekki að nefna nein nöfn. En eitt er víst og það mega menn bóka, það er hægt að eyða færslum okkar en það er ekki hægt að eyða okkur og baráttuhuga vorum. Jakob Björnsson PEREAT

Friday, June 09, 2006

Sigurleikur

Þeim, sem voru fyrir tilviljun staddir við gervigrasið hjá Leikni klukkan rúmlega níu í gærkvöldi, var skemmt þegar sigurreifir, bláklæddir og íþróttamannslegir drengir tóku sigurhringinn á grasinu gervi. Við nánari skoðun var um að ræða gulsokkurnar í Söllenbergers. Gat það verið? Höfðu Söllenbergers rekið af sér slyðruorðið og unnið leik? Jú, það var ekki um að villast, gleðin skein úr andliti viðstaddra. Já, nú höfum við unnið einn leik. Það var ekki heppni og það var ekki eitthvert grínlið sem við kepptum á móti. Þvert á móti (úúú, fallegt). Áður en þeir kepptu við okkur höfðu þeir tapað naumlega gegn sterku liði Ginola, pakkað Bakkusi saman og unnið góðan sigur á Hvatberum. Jú, úrslitin gegn okkur voru þau verstu í sumar fyrir FC Ferro. Við getum ekki annað en dregið þá ályktun að við eigum í fullu tré við öll lið í deildinni. Hvað gerðist? Af hverju unnum við allt í einu lið með tvífara Fjölnis Þorgeirssonar innanborðs? Galdrar? Nei, leikur okkar small saman og við lékum vel. Við vorum einfaldlega betri en andstæðingar okkar. Ekki mistakalaus leikur en nógu mistakalaus. Góð vörn en kannski fullmikil vörn. Ég vil persónulega þakka varnarmönnum fyrir vel spilaðan leik. Þetta voru greinilega gaurar sem kunna að skalla en upp við mark okkar var aldrei hætta, hvílíkir varnarskallar, hvílík vörn, takk, strákar. Góð barátta. Höldum þessu áfram og ég kemst ekki í bikarleikinn á þriðjudaginn. Áfram Söllenbergers.

Monday, June 05, 2006

// Blogger bilaður enn eina ferðina, en þökk sé Kára(hnjúkum) kemst hún inn á síðuna. Ásgeir Sælir verið Söllenbergerar Nú hafa ökklameiðsl hrjáð mig síðustu dagana og hef ég þess vegna því miður ekki getað tekið þátt í starfi liðsins eins og ég hefði kosið. Ég hef þó engu að síður ætíð heyrt nýjustu fréttir af starfseminni, annað hvort hér á síðunni eða þá í matarhléum í vinnunni og áhyggjur eru farnar að skjóta rótum í huga mínum. Ljóst er að úrbóta er þörf og hef ég því tekið saman áætlun í nokkrum liðum sem er til þess fallin að hjálpa liðinu við að rísa upp úr öskutónni. 1. Æfa saman. Útséð er um að það gangi lengur að ætla að halda æfingar á morgnana á laugardögum. Nú þegar sumarið er komið þurfa flestir liðsmanna að vakna á morgnana til að mæta í vinnu og eini möguleikinn á að sofa út er því um helgar. Mér heyrist það á fólki að það vilji eiga tækifæri á að sofa út með kærustunni (sbr. Kára), liggja heima í þynnku (sbr. Villa Stein) eða einfaldlega vaka alla nóttina, borða popp og horfa á Playboy TV (sbr. Rósa). Ef boltanum yrði seinkað og hafður síðdegis, líkt og lagt var með upphaflega síðasta haust held ég hins vegar að á þessu yrði gerð bót og allir yrðu sáttari fyrir vikið. Helstu rökin fyrir að hafa boltann á morgnana voru sú að þá ættu menn daginn allan eftir til að geta lært en lærdómurinn yrði ekki truflaður af bolta á miðjum degi. Ljóst er að sú ástæða er ekki fyrir hendi lengur og því mælir fleira með að hafa bolta seinna en snemma. 2. Tala saman. Nú tel ég sjálfan mig ekki í hópi þeirra sem mesta reynslu hafa af tuðrusparki hafa í liðinu og hef því haldið mig fyrir utan átök um leikskipulag og önnur slík málefni. Hins vegar hef ég orðið vitni að þónokkrum samtölum þar sem að menn eru að skammast yfir fjarverandi liðsfélögum sínum og slíkt óþolandi ástand gengur ekki lengur. Sú gamla klisja að það borgi sig heldur að tala beint út en skammast og baktala menn á svo sannarlega við hérna, með þessu áframhaldi sé ég fram á að ófremdarástand verði búið að skapast næsta haust og það held ég ekki að sé vilji neins. Ef þið eruð fúlir út í félaga ykkar vil ég því eindregið hvetja ykkur til að segja þeim það strax en ekki byrgja inni gremju í þeirra garð, þannig verður andrúmsloftið í liðinu hreinna og uppsöfnuð gremja kemur ekki til með að brjótast út þegar við síst eigum við því. 3. Drekka saman. Allt frá dögum Sókratesar hefur einfaldasta leiðin til að hrista hóp saman verið talin að sitja saman að sumbli og slík speki á líka við á okkar dögum. Lærisveinar Sókratesar voru blautir flesta daga ársins ásamt læriföður sínum og þó að við eigum e.t.v. ekki færi á að bjóða læriföður okkar, sjálfum Papa Gerald, í samdrykkju legg ég engu að síður til að bráðlega förum við að fordæmi þeirra, grillum og hellum í okkur. Pössum okkur bara að það sé ekki leikur daginn eftir... 4. Klæðast saman. Sjaldan hefur mórallinn meðal liðsmanna verið betri en einmitt þegar búningarnir glæsilegu komu til okkar. Nú hef ég ekki í hyggju að við tökum þátt í dragkeppni til að þétta hópinn, DónaGrjóni verður að sjá um að uppfylla þá draumóra sína sjálfur. Ég fékk hins vegar þá hugmynd að við mundum útvega meira af Söllenbergers fatnaði og fann í því skyni vörubækling frá fyrirtækinu Tanna, sem nálgast má hér. Þarna má finna fullt af skemmtilegum varningi, en ég legg til að við látum prenta á venjulega stuttermaboli merkið okkar góða aukt þess að við látum framleiða 19 gular húfur merktar liðinu. Heiðar snyrtir mælir allavega persónulega með gulum húfum í stíl við sokkana og ég held líka að það gæti orðið töff. Ég skal fara í það að kanna kostnað við þessa hugmynd á morgun, þriðjudag. Af þessu má sjá að ekki er öll nótt úti enn í liðinu og margt hægt að gera til að peppa liðsmenn upp. Ég vona að þessar hugmyndir hljóti brautargengi hjá samfélögum mínum í liðinu og að við munum rústa FC Ferro næsta fimmtudag eins og við eigum sjálfsögðu að gera. Baráttukveðjur, Ásgeir, sonur Söllenbergers nr. 13

Friday, June 02, 2006

Boltinn

Bolti klukkan 11 á morgun? Málið?

Thursday, June 01, 2006

Viljayfirlýsing

Jæja, leikurinn fór 6-1 ef ég taldi rétt og ég var í marki. En ég lýsi því hér með yfir að ég vil vera á milli stanganna í næsta leik. Áfram Söllenbergers!

Wednesday, May 31, 2006

Tilkynning frá umhverfisarmi Söllenbergers

Drekkjum Valgerði en ekki Íslandi! --- Bætt við 18:06 Ég sé núna að þetta var e.t.v. of gróft. Það ætti að hnakkaskjóta hana fyrst.

Tuesday, May 30, 2006

Jæja krakkar!

Þetta gengur ekki. Þið verðið að fara að mæta á æfingar. Ég tek ekki við fleiri afsökunum. Við eigum trefla gegn kvefi, úrvalslið lækna gegn öklameiðslum, regngalla gegn rigningu auk þess sem svefn er fyrir aumingja! Takið ykkur nú Birgi Guðjónsson og Jón Stefánsson til fyrirmyndar og drullist til að fara að mæta!

Sunday, May 28, 2006

Margt mjög jákvætt

Jæja nú er fyrsti leikurinn búinn og 3-1 tap er staðreynd. Mér fannst við byrja leikinn sem sterkari aðilinn og hefðum við einfaldlega getað komist yfir á fyrstu mínútunum. Síðan fengum við á okkur tvö ódýr mörk með stuttu millibili og datt þá leikur liðsins niður. Í seinni hálfleik náðum við að rífa okkur upp með þeim afleiðingum að Brynjar skoraði flott mark. Eftir það fengum við nokkur færi en vorum óheppnir að skora ekki. Undir lokin tókst Hvatberum á einhvern undraverðan hátt að mjaka boltanum undir varnarvegginn og í fjærhornið! Við gáfumst samt ekki upp og átti Villi t.d. flottan skalla í lokin sem var varinn. Eftir leik tókust menn í hendur og þökkuðu jafnframt dómaranum fyrir vel unnið starf. Mér fannst hann standa sig mjög vel. Ég held að við getum lært mikið af þessum leik. Hvatberar voru hægir en skynsamir og nýttu færin sín vel. Þeir voru harðir en samt ekki of grófir. Tveggja fóta tækling eins þeirra var alveg lögleg þó að hún hefði einfaldlega getað brotið eins og einn ökla. Við sáum líka hvernig varnarmennirnir og markvörðurinn unnu saman. Þannig tókst þeim að tefja á sama tíma og þeir þreyttu sóknarmenn. Þrátt fyrir ósigur þá megum við ekki hengja haus og gleyma þeirri staðreynd að við spilum fótbolta vegna þess að hann er skemmtilegur. Það var margt jákvætt í leik liðsins og leiðin liggur bara upp á við. Næsti leikur er á fimmtudaginn og ég er strax farinn að hlakka til. Vil kannski á endanum biðjast afsökunar á því að hafa verið að spila þunnur. Hélt að ég gæti alveg eins spilað þunnur í þessum leik og maður hefur gert nokkrum sinnum í laugardagsboltanum. Þetta sýndi bara reynsluleysi mitt því auðvitað er það ekki sambærilegt að skokka um á litlum völlum eins og Camp East og að hlaupa eins og brjálæðingur á velli sem er alla vega fjórum sinnum stærri. Ég læri vonandi af mistökunum. En já, margt mjög jákvætt!

Saturday, May 27, 2006

Uppfærsla á vefsíðu

Hvað segja menn og kona um það að gera vefsíðu félagsins enn glæsilegri en hún er núna og fjárfesta í .com léni fyrir síðuna. Skv. áreiðanlegum heimildum kostar þannig víst ekki nema um 9 dollara á ári, og það er ekki einu sinni 9 dollarar á mann heldur 9 dollarar saman fyrir alla liðsmenn. Skv. mínu bókhaldi á félagið um 4600 afgangs eftir greiðslu búninga og keppnisgjalda og þar sem ég tel að þetta sé mjög skemmtilegt óþarfa prjál legg ég það hér með til að það verði tekið til alvarlegrar íhugunar að við tryggjum okkur soellenbergers .com

Monday, May 22, 2006

Lagabreytingatillaga

Vegna eindreginna óska Bessa (sbr. athugasemdar hérna) og dræmrar mætingar síðasta laugardag legg ég til að boltinn verði framvegis kl. 11 á laugardögum í sumar. Bessi verður að fá að vera þunnur í friði á morgnana en það munar um sérhvern klukkutíma hjá honum. Því yrði mjög gott að fresta boltanum, þá fengu allir tækifæri til að sofa aðeins lengur út...

Tuesday, May 16, 2006

Agareglur

Eftirfarandi agareglur verða víst í gildi í Carlsberg deildinni í sumar. Ég bið menn því um að lesa þær yfir, og vona að Rósant ársins og þeir sem kepptust um þann titil á árshátíðinni hagi sér skikkanlega í sumar... --- Í ár verða dómarar með rauðspjöld á sér líkt og í fyrra sem og vissulega gul. Þessi spjöld eru neyðarúrræði svo við vonumst að sjálfsögðu til að nota þau sem minnst. En á móti verðum við heldur ekkert ragir við að henda þeim á loft ef tilefni þykir til. Gult spjald er áminnnig og þýðir í raun bara að menn verði að fara varlega og sleppa slíkum brotum sem og þeir fá áminningu fyrir.Tvö gul spjöld þýðir rautt. Rautt spjald er útilokun frá leiknum. Enginn leikmaður kemur í stað þess leikmanns er fær rauðaspjaldið og leika þeir því þá 1 færri það sem eftir lifir leiks. Leikur telst tapaður ef leikmenn eru orðnir færri en 5. Þetta þýðir líka að ef færri en 5 leikmenn eru mættir þegar leikur á að fara fram telst hann tapaður. Leikið er eftir reglum um 7 mannabolta. Það má gefa á markmann og hann taka með höndum annar að flestu leiti hefðbundnar reglur. (Sjá ksi.is lög og reglugerðir) ekki er skylda að leika í legghlífum en við mælum eindregið með því að svo sé gert. Annar skyldubúnaður er treyja keppnisliðs/og eða samlitar treyjur allra leikmanna liðsins. Leikbönn: eru alla jafna ekki. Þannig að rautt spjald í leiknum á undann þýðir ekki leikbann. En stjórn deildarinnar er heimilt að dæma menn í bann ef menn ganga yfir velsæmismörk.

Saturday, May 13, 2006

Fótboltinn

Sælar Magnaður bolti í gær, en þó virtist mér fótboltinn sjálfur sem sparkað var í hafa verið kominn af glæstasta skeiði (með fullri virðingu fyrir þeim sem tók hann með, takk fyrir það). Nú þegar ég var að lesa undir prófið á mánudaginn tókst mér venju samkvæmt að stúta nokkrum kókflöskum, þar á meðal nokkrum af hinni nýju sumargerð. Ég hjó eftir því að þar stendur að fyrir 40 tappa fáist glæstur Adidas HM-fótbolti, gullhjúpaður og demantsettur (eða því sem næst) og sting ég því upp á því að Söllenbergarar safni saman í einn þannig bolta og geri hann að opinberum bolta félagsins. 40 tappar eru ekki margir fyrir okkur tappana í liðinu og því legg ég til að við drekkum, drekkum og drekkum og mætum svo með afreksturinn í næsta bolta. Þess má geta að ég er ekki á prósentum hjá Vífilfelli (allavega ekki opinberlega). 23.000 boltar eru í boði skv. upplýsingunum á flöskunni og því ekki seinna að vænna en að fara að opna næstu flösku sem þú sérð. Húrra!

Friday, May 12, 2006

Morgundagsboltinn!

Það verður að vera bolti á morgun. Klukkan 10:00 er vélin í fyrirlestri. Milli klukkan 10:00 og 21:00 ætla margir að læra. Því legg ég til að haldinn verði stuttur en skemmtilegur bolti 21:00.

Búningar

Það er auðvitað bolti á morgun Tjaldsvæði eystra klukkan tíu. Þeir sem mæta þá gætu haft heppnina með sér og orðið jafnsvalir og Kári á meðfylgjandi myndum.

Mótsgjald

Gengið hefur verið frá greiðslu mótsgjalds svo nú geta Söllenbergerar sofið rólegir. Hins vegar áttaði ég mig skyndilega á því að leikið verður í Efra-Breiðholtinu í sumar, og legg ég því til að í stað vesta af þeirri gerð sem við könnumst við úr MR kaupum við skotheld vesti, maður veit aldrei á hverju maður á von þarna...

Tuesday, May 09, 2006

Pabbi

Umsókn Jóns Geralds Sullenbergers um að Arngrímur Ísberg viki sæti vegna vanhæfni í máli hans var synjað í dag. Ef fleira blæs á móti okkar manni legg ég til að við leikum með sorgarbönd. Annars er búið að raða í sæti á einhvern mjög óskiljanlegan hátt: 1. Hausastaðir 2. Premier FC 3. Team Lebowski 4. Ginola 5. Bakkus 6. Hvatberar 7. FC Ferro 8. FC Dominoz 9. Black Barbara 10. Sollenbergers Það lítur út fyrir að erfitt klif upp töfluna sé það sem bíður okkar.

Sunday, May 07, 2006

Bolti í góða veðrinu

Þeir sem mættu ekki áðan misstu af miklu, frábært veður eins og þessar myndir sem teknar voru á Camp East áðan sanna: Sigurjón með góða tæklingu Og í nærmynd, sjáið hvernig hann sleppir ekki augunum af andstæðingnum! Villi leikinn með boltann Rósant gaf ekkert eftir og stökk einnig iðulega upp á menn til að fagna mörkum

Saturday, May 06, 2006

Bolti

á morgun? 10? 11? Nýta góða veðrið?

Tuesday, May 02, 2006

Næsti bolti

Hvenær vilja menn hafa hann? Fimmtudagskvöld? Laugardagsmorgunn/hádegi? Eftir próf? Komið með ykkar skoðun, ég er viss um að það gerir öllum gott að sparka í tuðru í prófatörninni. P.s. Ég er farinn að ydda felgulykilinn, drífið ykkur að borga...

Sunday, April 30, 2006

Borga Borga Borga!

Þeir sem eru með broskall hjá nafninu sínu eiga von á búningum fljótlega eftir helgi. Hinir sem eru með fýlukall ættu að fara að borga svo þeir geti líka átt von á búningum. Það sem borga þarf er 5000 kall (buningur) + 5000 kall (mótsgjald), samlagning eftirlátin lesanda. Þetta skal fara á reikning 0311-26-006653 með kennitölu 131185-2199 og eru menn svo beðnir að senda kvittun á asb9@hi.is.

Friday, April 28, 2006

Bolti á morgun

Þið sáuð sms-ið frá Rósa, bolti kl. 10 í fyrramálið í Réttó, próf ekki tekin sem gild afsökun...

Ber er hver að baki nema bróður eigi í nótt

Ef að líkum lætur verða Söllenbergers kallaðir saman til að leika þann fjórtánda maí næstkomandi. Þetta kemur illa inn í dagbók margra leikmanna liðsins því að einmitt um það leyti nær prófatörnin hámarki. Þess vegna geri ég ráð fyrir að margir munu boða skróp sitt þennan dag. Mér fannst á póstinum frá herra Carlsberg hér neðar á síðunni að það væri mjög líklegt að við spilum þennan dag. Því verðum við að koma því á hreint hverjir geta spilað. Heyrzt hefur að eftirfarandi menn geti mögulega leikið þennan dag: Sigurjón Eiríkur Aron Haraldur Kári Össur Húnbogi Það væri nú skemmtilegt að hafa bara sjö menn í liðinu fyrsta leik og ég vona að slumpið mitt breytist lítið. Komast fleiri? Færri?

Monday, April 24, 2006

Búið að panta búninga! Til hamingju Söllenbergers!

Logomál neðar, en ásgeir nýtir tækifærið og segir eftirfarandi:

Nú eru búningamálin því sem næst komin á hreint, fagurgulir sokkar koma til með að kallast skemmtilega á við ljósbláu búningana í sumar og logo liðsins virðist hafa verið ákveðið. Því er ekki úr vegi að farið sé að velta fyrir sér fjárhagslegu hliðinni en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum virðist hún vera komin á mína könnu. Eftirfarandi fjármuni munu keppendur Söllenbergers í sumar þurfa að reiða af hendi:
  • Keppnisgjald í Carlsberg-deildina: 5000 kr
  • Búningur með prentun: 5000 kr
Verðið fyrir búninginn er gróflega áætlað en þó ætti ekki að muna nema nokkrum hrognkelsum í mesta lagi á endanlegu og áætluðu verði. Keppnisgjaldið er einnig gróflega áætlað á haus, en undanskildir greiðslu á því núna eru þeir heiðursmenn sem borguðu staðfestingargjaldið um daginn. Voru það þeir Sveinn "splæsari", Þorsteinn "þúsundkall" og Össur "örláti". Til að halda viðurnefnum sínum er þeim bent á að bjóða mér upp á pylsu og kók við tækifæri en að öðru leyti eru þeir sloppnir. Ég geri mér grein fyrir því að þær upphæðir sem farið er fram á eru nokkuð slumpkenndar og því nokkrar líkur á að einhver afgangur komi til með að verða af þeim peningum sem lagðar eru inn á reikninginn. En örvæntið eigi, ég er búinn að setja mig í samband við umboðsmann í Brasílíu og hann getur reddað okkur prýðisleikmönnum fyrir lítinn pening. Liggur því beinast við að láta afgangspening renna til hans og munum við þá fá okkar eigin Romario eða Roberto Carlos. Eða þá að peningunum verði eytt í vesti eða e-ð álíka skynsamlegt... Allavega. Reikningsnúmerið sem menn eiga að leggja inn á er 0311-26-006653. Kennitalan er 131185-2199. og svo senda kvittun á asb9@hi.is! Ég tek einnig við frjálsum framlögum inn á minn eigin persónulega reikning. Verður öllum þeim peningi sem lagður er inn á hann eytt undantekningalaust í áfengi og kem ég til með að sýna kvittanir fyrir öllum kaupum. Þeir sem vilja fá reikningsnúmerið á honum er bent á að hringja í mig eða hitta á mig í skólanum. Þeir sem ekki borga þessar 10 kúlur verða svo lamdir með felgulykli sem ég geymi í skottinu á bílnum mínum. Kv, Ásgeir

Sunday, April 23, 2006

Endurbætur á hans framlagi

Lógófíaði aðeins hugmyndina hans Ásgeirs

Saturday, April 22, 2006

Mitt framlag

Hér fyrir neðan má sjá framlag mitt fyrir logo Söllenbergers. Nú hyggst ég telja upp nokkrar ástæður fyrir því að ég tel það henta vel:
  • Nafn liðsins kemur fram í því
  • Það inniheldur dýr sem er vinur okkar flestra
  • Dýrið er grís, sbr. Bónusgrísinn verndaða. Hins vegar eru minni líkur á að lenda í málaferlum vegna Gurru en Bonsa (eða hvað sem Bónusgrísinn heitir
  • Það er auðvelt í prentun, einungis svart/hvítt
  • Grísinn er í réttarsal sem líkist Héraðsdómi Reykjavíkur, og réttarsalurinn er merktur Söllenbergers. Þannig erum við að rétta yfir Baugsveldinu í hvert skipti sem við klæðumst búningnum, nokkuð sem mundi gera Söllenberger stoltan!
  • Mér finnst það skemmtilegt
  • Nú ætla ég að birta logoið: Kv, Ásgeir

    Friday, April 21, 2006

    Og annar...

    Annar grís

    Ef bónusgölturinn er of heilagur þá höfum við alltaf þennan

    Logo nr. 2

    Jæja, hvað get ég sagt, sótti innblástur í málaferlin og Jóhannes í Bónus sem ég sá einmitt í Magasin du Nord í gær.

    Logo

    Thursday, April 20, 2006

    Við þurfum bara að koma okkur saman um að þetta sé ekki auglýsing og að við séum ekki að hæðast að neinum og þá er þetta (kannski) all í fínu.

    Alls kyns myndir hér á ferð

    Fyrir Hlyn.

    Páfagaukar

    Páfagaukamyndin sem Svenni var með áðan er víst til í alveg ógeðslega stórri upplausn svo það er vel framkvæmanlegt að hafa hana á búningunum. Stóra útgáfan

    Wednesday, April 19, 2006

    Bolti á morgun?

    Jæja, nú er síðasti vetrardagur og hvað þýðir það? Á morgun kemur sumar! Eins og sönnum Söllenbergerum sæmir ættum við því að taka á móti sumrinu á viðeigandi hátt og mæta í bolta með bolta og fullt af forsetningum á undan bolta klukkan TÓLF TÍU á morgun! Austurbæjarskóla. --- ATHUGIÐ VIÐBÓT --- Þeir sem ætla að fá búning í sumar eru sérstaklega velkomnir því að miðjuhringsumræður munu fara fram í fyrramálið. Númera-, merkja- og stærðarmál á búningunum verða útkljáð. Menn geta átt von á því að niðurstöður fundarins verði endanlegar. Því ættu allir með sjálfsvirðingu að reyna að sjá sér fært að mæta. Kveðja, nefndin.

    Saturday, April 15, 2006

    Yeah

    Góður bolti áðan. 9-10 á góðum velli og nú var sú nýjung tekin til reynslu að dæma boltann út af þegar hann fór út fyrir ákveðna línu. Nokkuð gott. En upp kom hugmynd um lausn á þjálfaravandamálinu. Hún er sú að einn leikmaður taki að sér að stilla upp liði, henda mönnum inn á og út af, einn leik í einu. Menn voru að spá í stafrófsröð en ég vil koma með smá hugmynd. Einhvern tíma við hátíðlega athöfn mun eitthvert slembitæki velja einn leikmann Söllenbergers til að byrja að stýra liðinu. Eftir það mun stafrófsröðin taka völdin. Þannig eru allir jafnlíklegir til að stýra liðinu á hverjum tíma eða aldrei stýra því. Bessi mun síðan hafa yfirumsjón og skrá yfir þjálfara. Auðvitað mega menn skipta innbyrðis og svona, ekkert einræði. What'ya say, what'ya say, what'ya say what? eins og herra De La Rocha sagði um árið.

    Monday, April 10, 2006

    Rak augun í þetta niðri í bæ áðan

    Úrslit kosninga

    Nú rétt í þessu lauk kosningu um lit búninga Söllenbergers tímabilið 2006. Niðurstöður eru eftirfarandi: Blár: 12 atkvæði Grænn: 6 atkvæði Auðir og ógildir: engir. Þessi úrslit eru endanleg og búningar Söllenbergers verða því bláir leiktímabilið 2006. Nokkrar athugasemdir bárust við framkvæmd kosninga og einhver hasar átti sér stað. Hér skal reifað það helsta.
    • Snemma síðari kjördags urðu menn varið við og bentu á áróður og umræður á kjörstað. Tekið var tillit til þessa og áróðurinn fjarlægður.
    • Um kvöldmatarleyti sama dags fóru að birtast atkvæði manna utan kjörskrár. Ónot flugu á milli fylkinganna og ásökuðu sumir aðra um smölum. Fóru ásakendur út í það að eyða atkvæðum þess sem smalað var. Það hafði svo í för með sér að sá sem ásakaður var ákvað að banna þann sem ásakaði auk þess sem sá sem smalað var varð reiður og fór mikinn með áróður á kjörstað. Á þessu tók kjörstjórn að lokum, afbannaði menn og eyddi áróðri og ógildum atkvæðum.
    • Milli 22:00 og 23:00 hefur kjörstjórn heimildir fyrir því að símalínur hafi logað hjá nokkrum aðilum. Rökstuddan grun hefur hún fyrir því að forsvarsmaður ákveðinnar fylkingar hafi staðið fyrir þessari ljósasýningu þ.e. hringt í þessa aðila og fengið heimild til að skrifa "Blár." undir þeirra nafni. Kjörstjórn fordæmir þessi vinnubrögð og ætlast til svonalagað verði ekki viðhaft í komandi kosningum. Ekkert verður þó aðhafst í þetta skiptið og skal þess getið að ógilding umræddra atkvæða myndi ekki hafa áhrif á úrslit kosninga. Umræddur úthringimeistari hefur eftir að hafa lesið annálinn firrað sig allri ábyrgð af umræddu og kveður alla málsmenn hafa mætt sjálfa á kjörstað. Kjörstjórn sér ekki ástæðu til að rengja manninn og telst því ofangreint vera tilhæfulau ásökun. Kjörstjórn biðst afsökunar á þessu.
    • Um það bil klukkustund fyrir lokun kjörstaða sáu forsvarsmenn annarar fylkingarinnar sér leik á borði og létu commentadálkinn hverfa. Eftir ávítur af hálfu kjörstjórnar féllust þeir á að skila commentadálkinum auk þess sem boðnar voru mútur æti kjörstjórn nokkur atkvæði hinnar fylkingarinnar. Kjörstjórn þáði að sjálfsögðu ekki þessar mútur og hætti öllum samskiptum við umrædda fylkingu enda fylgir hún þeirri stefnu að semja ekki við hryðjuverkamenn. Þess í stað voru sérfræðingar kjörstjórnar sóttir og náðu þeir að hafa upp á commentadálkinum án frekari samskipta við hryðjuverkamennina.
    Kjörstjórn

    Saturday, April 08, 2006

    Kosningar

    Hér fer fram kosning um lit búnings Söllenbergers tímabilið 2006.
    • Kjörfundur stendur yfir til miðnættis sunnudagsins 9. apríl.
    • Á kjörskrá eru þeir sem málið varðar.
    • Áróður á kjörstað er bannaður. (Allur áróður og umræður skulu semsagt fara fram undir öðrum færslum)
    • Mótmælum skal skilað til kjörstjórnar meðan á kjörfundi stendur.

    Síðasti séns Suðurnesjamannsins

    Líkt og glöggir lesendur hafa tekið eftir virðast miklar ritdeilur hafa staðið milli mín og Rósants síðustu vikuna. Þær deilur sem byrjuðu sakleysislega um búningamál færði hann yfir á grófara plan með persónulegum árásum og var ég farinn að óttast um líf mitt á hverjum morgni áður en ég mætti í skólann. "Skildi Rósant mæta með sveðjuna sína í skólann í dag" var hugsun sem þaut í gegnum huga minn á hverjum morgni og ég ákvað að mesta lífsvon mín væri falin í því að láta heyra í mér á hverjum degi, enda yrði það þá grunsamlegt ef rödd mín mundi skyndilega þagna. Síðasta þriðjudag tók þó út yfir allan þjófabálk þegar skrattakollurinn geystist fram á ritvöllinn og sakaði mig um ergi og dýrkynhneigð. Ég ákvað þó að láta kyrrt liggja, grey drengurinn bar öll merki þess að þjást af svæsnum greindarskorti og almennum biturleika út í lífið og ekki var á auma sálu hans leggjandi að svara honum af fullum krafti. Þegar þessi ákvörðun hafði verið tekin þóttist ég geta farið öruggur í skólann en þá tóku stanslausar athugasemdir liðsfélaga við í staðinn. Ég gat ekki gengið á göngum skólans án þess að einhver stoppaði mig og tjáði mér að Rósant hefði borið sigur úr býtum, að Rósant væri alltaf svo sniðugur, að Rósant þetta og Rósant hitt og að Rósant hefði eitt sinn boðið 10 mönnum upp í rúmið sitt. Að endingu fékk ég nóg og ákvað því að senda inn þessa mynd sem hér má sjá: Á næstu dögum verður stærri og stærri hluta yfirmálaða svæðisins svo birtur, allt þar til að Rósant hefur dregið ummæli sín til baka og beðist afsökunar á ómerkilegu lýðskrumi og hrottafengnum árásum á mannorð mitt. Fylgist með á morgun hvort að ljósbláa svæðið verði búið að minnka...

    Monday, April 03, 2006

    Ásgeir reit ritgerð:

    /* Þar sem óyndismennirnir sem ég fjalla um í þessum skrifum virðast hafa víðtækari áhrif en mig óaði fyrir hef ég leitað til Bessa um að koma þeim inn á síðuna. Ég vona að honum verði ekki meint af. Ásgeir */ Nei, nú er nóg komið. Nógu lengi hef ég þurft að hlusta á þvælu slægra liðsfélaga minna. Nógu lengi hafa þeir vaðið upp með frekju og yfirgangi og reynt að þvinga heimskulegum skoðunum sínum upp á okkur sakleysingjana. Með vafasömum rökum tekst þeim að plata æ fleiri til liðs við sig og ef fram fer sem horfir verða allir á máli þeirra innan skamms. Ég hef því ákveðið að setjast niður og rita þennan stutta pistling, okkur öllum til heilla. Í versta falli mun hann ef allir láta hugfallast verða ómetanleg heimild sagnfræðingum framtíðarinnar en í honum kristallast að eitt sinni spiluðu fyrir Söllenbergers menn með smekk. Í besta falli mun hann skína sem sólin í alnætti smekkleysunnar og lýsa mönnum leiðina út úr hyldýpi vitleysunnar. Ég er ekki að tala um álver, borgarstjórnarkosningar eða yfirsteðjandi olíukreppu. Nei, þær dægurflugur blikna í samanburði við ógnina sem stendur frammi fyrir okkur nú. Bláa búninginn. Síðastliðinn fimmtudagur virtist stefna í að verða hefðbundinn skóladagur. Ég mætti í skólann (rúmlega) 8:15 og sá fram á tíðindalausan dag í skólanum til 18:00. Það átti þó eftir að breytast skömmu fyrir hádegi þegar sú hugmynd kviknaði í fyrirlestri í Stærðfræðigreiningu II A að kíkja til Jóa útherja og athuga hvaða búninga hann gæti boðið okkur. Eftir akstur frá Suðurgötunni niður í Ármúla var bílnum lagt og Jói tók okkur opnum örmum. Bækling hafði hann að bjóða okkur með búningum sínum og boð það við þáðum. Það sem síðan gerðist verður lengi í minnum haft... Bæklingurinn góði var lagður á borðið og kappssamir fótboltamenn flettu með öruggum handtökum í gegnum hann. Skyndilega gerðist þó eitthvað og þögn sló á hópinn. Þarna var hann, þarna var búningurinn sem við vissum að við þráðum allir. Hinn heilagi kaleikur Carlsberg-deildarinnar, grænn líkt og grasið og fagur líkt og himininn. Og sjá, hér gefur hann að líta: Samstilltur strengur hafði verið sleginn í huga allra viðstadda. Innst inni í sálartetrum ferðalanganna hafði kviknað ástríðubál sem erfitt átti eftir að slökkva. Búninginn góða urðum við að fá, annars ættu stanslaus vonbrigði í búningamálum eftir að elta okkur á komandi tímum. Þangað til á laugardaginn lifði ég ánægður í þeirri fullvissu að allir samherjar mínir sæu hve augljósan kost við ættum í búningamálum. En hve mikið mér skjöplaðist, hve sár urðu vonbrigði mín. Svo virðist sem illir andar hafa læst klóm sínum í nokkra liðsmenn, og andsetnir ólánsmenn með Rósant eiturnöðru í broddi fylkingar börðust hatrammlega gegn hinu góða og fagra. Milli þess sem hausar þeirra snerust á líkamanum líkt og vínylplötur undir nál greiddu þeir atkvæðu gegn græna búningnum en með satanískri ljósblárri múnderingu sem sjá mér hér fyrir neðan: ÁI! Augun mín! Mér svíður við það eitt að líta þennan óskapnað augum og grey hugur minn afber ekki þá hugsun að klæðast honum. Eftir atkvæðatalningu var staðan svo ljós. Fylgismenn hins góða, þess fagra, þeir sem trúa ennþá á að hægt sé að bæta heiminn og til sé ljós sem lýsir mönnum veginn til betra lífs sé til, þeir sem vildu græna búninginn þurftu að berjast hatrammlega til að verða ekki undir. Með hetjuskap tókst þeim að klekkja á ólýðræðislegum vinnubrögðum þeirra fordæmdu fylgismanna ljósblárra og knúðu fram jafntefli sem stóð þó tæpt. Guð má vita til hvaða lúalegu bragða ljósbláu mennirnir grípa til næst, smalanir á kjörstað yrði hófstillt aðgerð af þeirra hálfu. Ég sef með ljósin kveikt og með hníf undir koddanum, þeir geta e.t.v. þaggað niður í mér en lifandi koma þeir mér aldrei í þennan viðbjóð. Að lokum vil ég vitna í fáránleg rök þeirra sem aðhyllast ljósbláa búninginn í von um að lesendur sem enn velkjast í vafa sjái að sér og velji grænt næst þegar í boði verður að nýta atkvæðisréttinn. "SV said... Ég er bara svo hrifinn af þessum bláu litum. Ég held að Söllenberger sjálfur myndi velja þann bláa. Endilega fleiri að segja sína skoðun. " Síðast þegar ég vissi var SV einlægur (og eini) aðdáandi stuðningsmaður Newcastle. Ég skil ekki hvaðan það blæti að klæðast búningum Manchester City hefur læðst inn í huga hans, en það er vonandi að hann sjái villu síns vegar fljótlega. Kannski blundar í honum sú þrá að vera líkt og frægasti leikmaður Manchester City, nei bíðið við, það er ekki til neinn slíkur!!! Slík firru og að vilja leika í eins búningum og það auma lið hefur ekki borist til eyrna mér í lengri tíma. Rósant eiturnaðra bítur svo höfuðið af skömminni með þessum ummælum: "Rósant said... Blái búningurinn er fallegri í sniðum en sá græni." Nú spyr ég þig Rósant: Hvernig í fjandanum færðu það út að blái sé í fallegri sniðum en sá græni? Búningarnir eru í nákvæmlega eins sniði (enda í sömu línu), eini munurinn er að sá í bláa virðist taka 50 kg meira í bekk en sá í græna. Ef til vill er það (ekki svo) leyndur losti sem þú berð til vöðvastæltra fótboltamanna en að vilja þröngva þínum einkamálum upp á okkur hina eru framkvæmdir sjúks huga sem ég fæ aldrei skilið. Ég veit heldur ekki hvað rekur þig Rósant til þess að vilja hafa búningana sem þrengsta. Með níðþröngum spandexgalla sem mér heyrist á þér að sé draumabúningur þinn yrðir þú til að mynda dæmdur rangstæður um leið og þú kæmir inn á völlinn í sumar. Önnur dæmi um slíkt ófremdarástand og það mundi skapa þarf að leita í Gamla Testamentinu og ég mundi því hugsa mig vel um í þínum sporum... Ég el þá sakleysislegu von í brjósti að pistill þessi komi mönnum í skilning um að græni búningurinn sé hinn eini rétti. Með sannleikann á vopni vonast ég til að hafa bælt frá því sem byrgði hinum fordæmdu sýn og nú séu þeir jafnsannfærðir og ég um hið eina rétta í stöðunni. Með fullvissu um að sá græni verði valinn í næsta kjöri, Ásgeir

    Sunday, April 02, 2006

    Flottir búningar

    Kári og Egill sögðu...

    verði ljón. og það varð ljón. Annars ætla ég að skrifa langan pistil hérna um búningamál. Bíðið bara...

    Friday, March 31, 2006

    Bara pæling

    Það er spurning hvort að við ætlum að nota mynd af kallinum fyrir "logo" liðsins eða hvort við viljum eitthvað einfaldara og hugsanlega ódýrara í prentun. Hérna er ég aðeins að leika mér með "Baugslogoið".

    Monday, March 27, 2006

    Önnur mynd

    Eftir gífurlegar undirtektir sem fyrsta logo liðsins hlaut ákvað ég að fresta skýrslugerð í eðlisfræði í smástund og gá hvort ég gæti ekki Warholað ídólið sjálft. Afraksturinn má sjá hér fyrir neðan. Allar uppástungur um skemmtilegar litasamsetningar vel þegnar... Ásgeir

    Sunday, March 26, 2006

    Afnám skipulagsleysis

    Tillaga: Héðan í frá verður laugardagsboltinn haldinn klukkan 2 í Austurbæjarskóla. Ræðið, mótmælið eða samþykið. Helst ekki þegja því þannig virkar ekki lýðræði.

    Friday, March 24, 2006

    Stundvísi er dygð

    Sælir piltar og Salvör, Fólki finnst kannski skrítið að maður sem ætlar að læra um kenningar skammtafræðinnar með allri sinni eðlislægu óvissu sé orðinn pirraður á tali um yfirstjórn án þess að vitað sé hverjir hana skipa. En ég er það, þ.e. ég er pirraður á þessu tali um stjórnir sem annað hvort eru leynistjórnir eða eru einfaldlega ekki til. Ég vil því leggja til að við hættum þessu tali um "yfirstjórnina" þangað til að við komum okkur saman um það hverjir hana skipa ef hún á yfirhöfuð að vera til. Mér finnst að þessi bloggsíða sé tilvalinn vettvangur fyrir "lýðræðislegar umræður" og jafnvel kosningar. Lengi vel hefur það verið skoðun mín að í staðinn fyrir að láta hanann á haugnum (a.k.a. spaðaásinn) segja okkur hvar boltinn sé, hvernig hann verði o.s.frv. þá sé betra að menn ákveði hlutina í sameiningu. Með þessu móti getum við sloppið við að þakka fólki fyrir að nenna að standa í þessu eins og einhver orðaði það og þakkað okkur sjálfum fyrir að hafa skoðun. Laugardagsboltinn stefnir nú að því að hafa lið í utandeildinni í sumar. Við stöndum því frammi fyrir spurningum eins og hvort einhver og þá hver eigi að: skrá liðið, finna búninga, íhuga mögulegar æfingar og halda utan um liðið t.d. með því að sjá um "innáskiptingar" manna í sumar (einhvers konar þjálfari). Að lokum velti ég fyrir mér hvort einhver geti sagt þeim sem minna veit hvar boltinn verði á morgun? Þetta var mín skoðun með Jóni Emil

    Wednesday, March 22, 2006

    Logo

    Í miðri deilu um inni eða útibolta sá ég mér ekki annað fært en að gera uppkast að logo-i liðsins. Það má sjá hér fyrir neðan. Ásgeir

    Tuesday, March 21, 2006

    Hverjir koma á laugardag?

    Ég er upptekinn til fjögur. Kemst líklega ekki, en þið?

    Monday, March 20, 2006

    Yfirstjórn

    Orðið á götunni er að sjálfskipuð yfirstjórn boltans hefur tekið einhliða ákvörðun um að Söllenbergers muni ekki spila innandyra aftur fyrr en í haust. Málsgreinin að ofan er kannski ekki alveg sannleikanum samkvæm og kannski er orðalagið fullhart en ég vil vekja máls á þessu. Ég vil halda áfram að spila í litlum íþróttasal þar sem hitastig andrúmsloftsins á í fullu tré við hitann í leikmönnunum, sama hvort veturinn kemur aftur eða ekki. Ef ég er einn um þessa skoðun virði ég lýðinn en ef einhver er sammála mér skal/skulu sá/sú/þeir/þau hinn/hin/hinir sami/sama/sömu láta í sér heyra. Viljum við vera dálítið inni eða er málið að vera eins mikið úti og hægt er?

    Saturday, March 18, 2006

    ESS EMM ESS

    Nú hef ég ritað lítið sætt SMS kerfi sem á að hjálpa Kára og öðrum boltaiðkendum að draga enn frekar úr því stressi sem virðist fylgja aðdraganda hverrar helgar. Til þess að þetta gangi nú upp þurfum við þó smá átak. Menn þurfa að athuga eftirfarandi
    • Þeir sem vilja fá sms um staðsetningu og stund boltans ásamt öðrumilkynningum (og tilboðum?) þurfa að koma til mín nafni sínu og símanúmeri, til dæmis með því að svara þessu bloggi.
    • Þeir sem þekkja einhver sem vill fá sömu sms en les ekki þessa síðu mega koma til mín nafni þess einstaklings og símanúmeri
    • Púkarnir sem vilja engin sms mega líka alveg láta mig vita svo ég geti tryggt að þeir fái engin sms
    • Þeir sem telja sig þurfa að senda sms einhvern tíman mega hafa samband við mig sem fyrst svo ég geti gefið þeim aðgang að sendingartólinu.
    Fleira var það ekki.

    Friday, March 17, 2006

    Álver

    Heyrzt hefur að laugardagsbolti verði á laugardaginn. Já, á Austurbæjarskólavelli klukkan tvö. Liðin verða líklega tvö. Liðin verða þannig skipuð að í öðru liðinu eru menn og konur sem eru fylgjandi álversframkvæmdunum á Húsavík (Höskuldur, Kári, Sigurjón, Sveinn og líklega fleiri). Í hinu liðinu eru þeir sem eru á móti umræddum álversframkvæmdum(Ásgeir, Jón Emil, Sigþór Bessi, Vilhjálmur og líklega fleiri). Nú gera menn sér grein fyrir því að það eru ekki allir sem taka svona eindregna afstöðu í þessu máli. En þeim óákveðnu verður einfaldlega skipt bróðurlega á milli liðanna. En til að gera leikinn skemmtilegri hvet ég alla til að mynda sér skoðun og berjast fyrir málefnin!
     
    web statistics