Monday, June 05, 2006

// Blogger bilaður enn eina ferðina, en þökk sé Kára(hnjúkum) kemst hún inn á síðuna. Ásgeir Sælir verið Söllenbergerar Nú hafa ökklameiðsl hrjáð mig síðustu dagana og hef ég þess vegna því miður ekki getað tekið þátt í starfi liðsins eins og ég hefði kosið. Ég hef þó engu að síður ætíð heyrt nýjustu fréttir af starfseminni, annað hvort hér á síðunni eða þá í matarhléum í vinnunni og áhyggjur eru farnar að skjóta rótum í huga mínum. Ljóst er að úrbóta er þörf og hef ég því tekið saman áætlun í nokkrum liðum sem er til þess fallin að hjálpa liðinu við að rísa upp úr öskutónni. 1. Æfa saman. Útséð er um að það gangi lengur að ætla að halda æfingar á morgnana á laugardögum. Nú þegar sumarið er komið þurfa flestir liðsmanna að vakna á morgnana til að mæta í vinnu og eini möguleikinn á að sofa út er því um helgar. Mér heyrist það á fólki að það vilji eiga tækifæri á að sofa út með kærustunni (sbr. Kára), liggja heima í þynnku (sbr. Villa Stein) eða einfaldlega vaka alla nóttina, borða popp og horfa á Playboy TV (sbr. Rósa). Ef boltanum yrði seinkað og hafður síðdegis, líkt og lagt var með upphaflega síðasta haust held ég hins vegar að á þessu yrði gerð bót og allir yrðu sáttari fyrir vikið. Helstu rökin fyrir að hafa boltann á morgnana voru sú að þá ættu menn daginn allan eftir til að geta lært en lærdómurinn yrði ekki truflaður af bolta á miðjum degi. Ljóst er að sú ástæða er ekki fyrir hendi lengur og því mælir fleira með að hafa bolta seinna en snemma. 2. Tala saman. Nú tel ég sjálfan mig ekki í hópi þeirra sem mesta reynslu hafa af tuðrusparki hafa í liðinu og hef því haldið mig fyrir utan átök um leikskipulag og önnur slík málefni. Hins vegar hef ég orðið vitni að þónokkrum samtölum þar sem að menn eru að skammast yfir fjarverandi liðsfélögum sínum og slíkt óþolandi ástand gengur ekki lengur. Sú gamla klisja að það borgi sig heldur að tala beint út en skammast og baktala menn á svo sannarlega við hérna, með þessu áframhaldi sé ég fram á að ófremdarástand verði búið að skapast næsta haust og það held ég ekki að sé vilji neins. Ef þið eruð fúlir út í félaga ykkar vil ég því eindregið hvetja ykkur til að segja þeim það strax en ekki byrgja inni gremju í þeirra garð, þannig verður andrúmsloftið í liðinu hreinna og uppsöfnuð gremja kemur ekki til með að brjótast út þegar við síst eigum við því. 3. Drekka saman. Allt frá dögum Sókratesar hefur einfaldasta leiðin til að hrista hóp saman verið talin að sitja saman að sumbli og slík speki á líka við á okkar dögum. Lærisveinar Sókratesar voru blautir flesta daga ársins ásamt læriföður sínum og þó að við eigum e.t.v. ekki færi á að bjóða læriföður okkar, sjálfum Papa Gerald, í samdrykkju legg ég engu að síður til að bráðlega förum við að fordæmi þeirra, grillum og hellum í okkur. Pössum okkur bara að það sé ekki leikur daginn eftir... 4. Klæðast saman. Sjaldan hefur mórallinn meðal liðsmanna verið betri en einmitt þegar búningarnir glæsilegu komu til okkar. Nú hef ég ekki í hyggju að við tökum þátt í dragkeppni til að þétta hópinn, DónaGrjóni verður að sjá um að uppfylla þá draumóra sína sjálfur. Ég fékk hins vegar þá hugmynd að við mundum útvega meira af Söllenbergers fatnaði og fann í því skyni vörubækling frá fyrirtækinu Tanna, sem nálgast má hér. Þarna má finna fullt af skemmtilegum varningi, en ég legg til að við látum prenta á venjulega stuttermaboli merkið okkar góða aukt þess að við látum framleiða 19 gular húfur merktar liðinu. Heiðar snyrtir mælir allavega persónulega með gulum húfum í stíl við sokkana og ég held líka að það gæti orðið töff. Ég skal fara í það að kanna kostnað við þessa hugmynd á morgun, þriðjudag. Af þessu má sjá að ekki er öll nótt úti enn í liðinu og margt hægt að gera til að peppa liðsmenn upp. Ég vona að þessar hugmyndir hljóti brautargengi hjá samfélögum mínum í liðinu og að við munum rústa FC Ferro næsta fimmtudag eins og við eigum sjálfsögðu að gera. Baráttukveðjur, Ásgeir, sonur Söllenbergers nr. 13

4 comments:

Kári said...

Til hamingju með hundruðustu færsluna, Ásgeir og aðrir Söllenbergerar!

Anonymous said...

Húrra ræðumaður, húrra!

Anonymous said...

Hallo I absolutely adore your site. You have beautiful graphics I have ever seen.
»

Anonymous said...

Very best site. Keep working. Will return in the near future.
»

 
web statistics