Sunday, May 28, 2006

Margt mjög jákvætt

Jæja nú er fyrsti leikurinn búinn og 3-1 tap er staðreynd. Mér fannst við byrja leikinn sem sterkari aðilinn og hefðum við einfaldlega getað komist yfir á fyrstu mínútunum. Síðan fengum við á okkur tvö ódýr mörk með stuttu millibili og datt þá leikur liðsins niður. Í seinni hálfleik náðum við að rífa okkur upp með þeim afleiðingum að Brynjar skoraði flott mark. Eftir það fengum við nokkur færi en vorum óheppnir að skora ekki. Undir lokin tókst Hvatberum á einhvern undraverðan hátt að mjaka boltanum undir varnarvegginn og í fjærhornið! Við gáfumst samt ekki upp og átti Villi t.d. flottan skalla í lokin sem var varinn. Eftir leik tókust menn í hendur og þökkuðu jafnframt dómaranum fyrir vel unnið starf. Mér fannst hann standa sig mjög vel. Ég held að við getum lært mikið af þessum leik. Hvatberar voru hægir en skynsamir og nýttu færin sín vel. Þeir voru harðir en samt ekki of grófir. Tveggja fóta tækling eins þeirra var alveg lögleg þó að hún hefði einfaldlega getað brotið eins og einn ökla. Við sáum líka hvernig varnarmennirnir og markvörðurinn unnu saman. Þannig tókst þeim að tefja á sama tíma og þeir þreyttu sóknarmenn. Þrátt fyrir ósigur þá megum við ekki hengja haus og gleyma þeirri staðreynd að við spilum fótbolta vegna þess að hann er skemmtilegur. Það var margt jákvætt í leik liðsins og leiðin liggur bara upp á við. Næsti leikur er á fimmtudaginn og ég er strax farinn að hlakka til. Vil kannski á endanum biðjast afsökunar á því að hafa verið að spila þunnur. Hélt að ég gæti alveg eins spilað þunnur í þessum leik og maður hefur gert nokkrum sinnum í laugardagsboltanum. Þetta sýndi bara reynsluleysi mitt því auðvitað er það ekki sambærilegt að skokka um á litlum völlum eins og Camp East og að hlaupa eins og brjálæðingur á velli sem er alla vega fjórum sinnum stærri. Ég læri vonandi af mistökunum. En já, margt mjög jákvætt!

1 comment:

Anonymous said...

Já, vel mælt Jón Emil. Við getum lært helling af þessum leik. Við erum óvanir svona stórum velli og það sást vel. Eins og Jommi sagði, þá var margt jákvætt í okkar leik. Ég hef fulla trú á því að við tökum næsta leik gegn FC Premier. Að lokum vil ég biðjast afsökunar á hegðun minni á hliðarlínunni þar sem ég hlaut áminningu dómara fyrir orðbragð. Það mun ekki gerast aftur.

 
web statistics