Monday, April 03, 2006

Ásgeir reit ritgerð:

/* Þar sem óyndismennirnir sem ég fjalla um í þessum skrifum virðast hafa víðtækari áhrif en mig óaði fyrir hef ég leitað til Bessa um að koma þeim inn á síðuna. Ég vona að honum verði ekki meint af. Ásgeir */ Nei, nú er nóg komið. Nógu lengi hef ég þurft að hlusta á þvælu slægra liðsfélaga minna. Nógu lengi hafa þeir vaðið upp með frekju og yfirgangi og reynt að þvinga heimskulegum skoðunum sínum upp á okkur sakleysingjana. Með vafasömum rökum tekst þeim að plata æ fleiri til liðs við sig og ef fram fer sem horfir verða allir á máli þeirra innan skamms. Ég hef því ákveðið að setjast niður og rita þennan stutta pistling, okkur öllum til heilla. Í versta falli mun hann ef allir láta hugfallast verða ómetanleg heimild sagnfræðingum framtíðarinnar en í honum kristallast að eitt sinni spiluðu fyrir Söllenbergers menn með smekk. Í besta falli mun hann skína sem sólin í alnætti smekkleysunnar og lýsa mönnum leiðina út úr hyldýpi vitleysunnar. Ég er ekki að tala um álver, borgarstjórnarkosningar eða yfirsteðjandi olíukreppu. Nei, þær dægurflugur blikna í samanburði við ógnina sem stendur frammi fyrir okkur nú. Bláa búninginn. Síðastliðinn fimmtudagur virtist stefna í að verða hefðbundinn skóladagur. Ég mætti í skólann (rúmlega) 8:15 og sá fram á tíðindalausan dag í skólanum til 18:00. Það átti þó eftir að breytast skömmu fyrir hádegi þegar sú hugmynd kviknaði í fyrirlestri í Stærðfræðigreiningu II A að kíkja til Jóa útherja og athuga hvaða búninga hann gæti boðið okkur. Eftir akstur frá Suðurgötunni niður í Ármúla var bílnum lagt og Jói tók okkur opnum örmum. Bækling hafði hann að bjóða okkur með búningum sínum og boð það við þáðum. Það sem síðan gerðist verður lengi í minnum haft... Bæklingurinn góði var lagður á borðið og kappssamir fótboltamenn flettu með öruggum handtökum í gegnum hann. Skyndilega gerðist þó eitthvað og þögn sló á hópinn. Þarna var hann, þarna var búningurinn sem við vissum að við þráðum allir. Hinn heilagi kaleikur Carlsberg-deildarinnar, grænn líkt og grasið og fagur líkt og himininn. Og sjá, hér gefur hann að líta: Samstilltur strengur hafði verið sleginn í huga allra viðstadda. Innst inni í sálartetrum ferðalanganna hafði kviknað ástríðubál sem erfitt átti eftir að slökkva. Búninginn góða urðum við að fá, annars ættu stanslaus vonbrigði í búningamálum eftir að elta okkur á komandi tímum. Þangað til á laugardaginn lifði ég ánægður í þeirri fullvissu að allir samherjar mínir sæu hve augljósan kost við ættum í búningamálum. En hve mikið mér skjöplaðist, hve sár urðu vonbrigði mín. Svo virðist sem illir andar hafa læst klóm sínum í nokkra liðsmenn, og andsetnir ólánsmenn með Rósant eiturnöðru í broddi fylkingar börðust hatrammlega gegn hinu góða og fagra. Milli þess sem hausar þeirra snerust á líkamanum líkt og vínylplötur undir nál greiddu þeir atkvæðu gegn græna búningnum en með satanískri ljósblárri múnderingu sem sjá mér hér fyrir neðan: ÁI! Augun mín! Mér svíður við það eitt að líta þennan óskapnað augum og grey hugur minn afber ekki þá hugsun að klæðast honum. Eftir atkvæðatalningu var staðan svo ljós. Fylgismenn hins góða, þess fagra, þeir sem trúa ennþá á að hægt sé að bæta heiminn og til sé ljós sem lýsir mönnum veginn til betra lífs sé til, þeir sem vildu græna búninginn þurftu að berjast hatrammlega til að verða ekki undir. Með hetjuskap tókst þeim að klekkja á ólýðræðislegum vinnubrögðum þeirra fordæmdu fylgismanna ljósblárra og knúðu fram jafntefli sem stóð þó tæpt. Guð má vita til hvaða lúalegu bragða ljósbláu mennirnir grípa til næst, smalanir á kjörstað yrði hófstillt aðgerð af þeirra hálfu. Ég sef með ljósin kveikt og með hníf undir koddanum, þeir geta e.t.v. þaggað niður í mér en lifandi koma þeir mér aldrei í þennan viðbjóð. Að lokum vil ég vitna í fáránleg rök þeirra sem aðhyllast ljósbláa búninginn í von um að lesendur sem enn velkjast í vafa sjái að sér og velji grænt næst þegar í boði verður að nýta atkvæðisréttinn. "SV said... Ég er bara svo hrifinn af þessum bláu litum. Ég held að Söllenberger sjálfur myndi velja þann bláa. Endilega fleiri að segja sína skoðun. " Síðast þegar ég vissi var SV einlægur (og eini) aðdáandi stuðningsmaður Newcastle. Ég skil ekki hvaðan það blæti að klæðast búningum Manchester City hefur læðst inn í huga hans, en það er vonandi að hann sjái villu síns vegar fljótlega. Kannski blundar í honum sú þrá að vera líkt og frægasti leikmaður Manchester City, nei bíðið við, það er ekki til neinn slíkur!!! Slík firru og að vilja leika í eins búningum og það auma lið hefur ekki borist til eyrna mér í lengri tíma. Rósant eiturnaðra bítur svo höfuðið af skömminni með þessum ummælum: "Rósant said... Blái búningurinn er fallegri í sniðum en sá græni." Nú spyr ég þig Rósant: Hvernig í fjandanum færðu það út að blái sé í fallegri sniðum en sá græni? Búningarnir eru í nákvæmlega eins sniði (enda í sömu línu), eini munurinn er að sá í bláa virðist taka 50 kg meira í bekk en sá í græna. Ef til vill er það (ekki svo) leyndur losti sem þú berð til vöðvastæltra fótboltamanna en að vilja þröngva þínum einkamálum upp á okkur hina eru framkvæmdir sjúks huga sem ég fæ aldrei skilið. Ég veit heldur ekki hvað rekur þig Rósant til þess að vilja hafa búningana sem þrengsta. Með níðþröngum spandexgalla sem mér heyrist á þér að sé draumabúningur þinn yrðir þú til að mynda dæmdur rangstæður um leið og þú kæmir inn á völlinn í sumar. Önnur dæmi um slíkt ófremdarástand og það mundi skapa þarf að leita í Gamla Testamentinu og ég mundi því hugsa mig vel um í þínum sporum... Ég el þá sakleysislegu von í brjósti að pistill þessi komi mönnum í skilning um að græni búningurinn sé hinn eini rétti. Með sannleikann á vopni vonast ég til að hafa bælt frá því sem byrgði hinum fordæmdu sýn og nú séu þeir jafnsannfærðir og ég um hið eina rétta í stöðunni. Með fullvissu um að sá græni verði valinn í næsta kjöri, Ásgeir

14 comments:

Jón Emill said...

Skemmtilegasta færsla sem ég hef lesið lengi. Að sjálfsögðu á búningurinn að vera grænn.

Anonymous said...

Ásgeir, hvernig stendur á því að þið sögðuð að búningurinn væri Sporting þegar á búningunum á myndunum stendur ProStar?

Kári said...

Jafnvel að maður hafi snúizt á sveif hinna réttlátu.

Anonymous said...

Ásgeir minn, þú þarft ekkert að kvíða því að klæðast bláu búningunum, þú verður hvort eð er alltaf í utanyfirgallanum þínum á bekknum!

Kári said...

Ekki nóg með það að uppnám ríki í herbúðum Sona Söllenbergers heldur var Söllenberger sjálfur kærður í gær.

Anonymous said...

Prostar er merkið en Sporting er sniðið.

Anonymous said...

gamla ritskoðunin sem fer fram á þessum vef...

Ásgeir said...

Eins og Jommi benti réttilega á er Prostar merkið en Sporting sniðið/línan sem búningurinn er í.

Annars dró til tíðinda um daginn þegar ég skoðaði fréttir á fotbolti.net. Þar var grein um Real Madrid og rætt um framherja liðsins. Þar kom fram að Ronaldo væri feitur og latur en hefði eitt sinn verið góður í fótbolta. Það er því ljóst að ekki vantar upp á nema eitt atriði að Söllenbergers eigi sinn eigin Ronaldo í þér Rósant!

Ólafur said...

Allt er vænt sem er grænt!...Líka Framsókn

Anonymous said...

Það kemur svolítið á óvart að ásgeir bendli mig við losta í garð vöðvastæltra íþróttamanna. Ég bendi hér með á greinina ,,Kári og Egill sögðu...". Þar kemur bersýnilega í ljós að undarlegar hvatir ráða hugsun ásgeirs í garð liðsins þar sem vöðvastæltur líkami kattardýrs og útlínur getnaðarlims þess eru í hávegum hafðir. Einnig minnist ég þráhyggju ásgeirs til að fá sem flesta með sér í gufu fyrr í vetur. Hver var tilgangurinn með því ásgeir??!! Sem sagt, framlag ásgeirs til þessa liðs er eftirfarandi: primo: Hann útbjó klámmynd af simba og sýndi fram á óviðjafnanlega paint kunnáttu sína, secundo: Hann reyndi að þröngva samkynhneigð sinni á mig og aðra félaga mína í hinu göfuga félagi Söllenbergers. Ég legg til að við hættum þessu búningarugli og gerum búnta það til geðs að mæta í blárri sundskýlu með rauða frollu á hausnum í næsta bolta. Þá fyrst getur hann lagt þessa þráhyggju frá sér og á þá ekki í hættu að fá það í brækurnar næst þegar hann labbar framhjá Kattholti.

Bessi said...

Ég hlakka til að sjá þig í blárri sundskýlu með rauðri frollu á hausnum á fimmtudaginn rósant!

Anonymous said...

Jafntefli síðast? Ég á eftir að kjósa

Jón Emill said...

Var Hössi að skipta um bakgrunnslit?

Anonymous said...

Sammála síðasta ræðumanni. Nema ég get bara gefið eitt atkvæði

 
web statistics